133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

afnot af Ráðherrabústaðnum.

488. mál
[12:28]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ráðherrabústaðurinn var umrætt kvöld 29. september síðastliðinn bókaður af landbúnaðar- og viðskiptaráðherra sameiginlega. Þetta svarar fyrri lið spurningarinnar.

Um það hvort eðlilegt sé að ráðherra veiti aðilum utan Stjórnarráðsins afnot af Ráðherrabústaðnum er því til að svara að yfirleitt er það ekki eðlilegt eða rétt. En þegar í hlut á maður sem hefur verið forsætisráðherra og ráðherra í ríkisstjórn Íslands í 19 ár og þegar hálf ríkisstjórnin stendur fyrir slíku boði, formlega séð í nafni landbúnaðarráðherra og viðskiptaráðherra, þá er ekkert við það að athuga að mínum dómi.