133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

varnarsvæði á Miðnesheiði.

526. mál
[12:36]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Svokölluðu varnarsvæði á Miðnesheiði var skipt upp eftir brottför varnarliðsins með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum um ráðstafanir í kjölfar samnings við Bandaríkin, um skil á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli, sem samþykkt voru frá Alþingi 9. desember sl.

Svæðinu er þrískipt. Í fyrsta lagi er svæði afmarkað fyrir starfsemi alþjóðaflugvallarins, flugverndarsvæði, sem heyrir enn sem komið er undir utanríkisráðuneytið, en að störfum er nefnd á vegum utanríkisráðuneytis og samgönguráðuneytis sem vinnur að tillögum um yfirfærslu á stjórnsýslu til samræmis við það sem tíðkast annars staðar í landinu. Gert er ráð fyrir að tillögurnar verði tilbúnar ekki síðar en undir lok þessa mánaðar eins og raunar er kveðið á um í áðurnefndum lögum.

Þá er sérstaklega afmarkað öryggissvæði þar sem fyrir er aðstaða vegna varna landsins og heyrir undir utanríkisráðuneytið. Mannvirki á því svæði, sem mörg hver eru í eigu Atlantshafsbandalagsins, verða notuð fyrir varnartengda starfsemi eins og æfingar en ein slík er einmitt fyrirhuguð á haustmánuðum.

Í þriðja lagi nefni ég starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. en forsætisráðuneytið fer með hlutafé þess. Langstærstur hluti bygginga varnarliðsins er á því svæði. Ég geri ráð fyrir að einkum sé verið að vísa til þess í fyrirspurninni enda eru það fyrst og síðast byggingar sem fyrirhugað er að koma í almenna, borgaralega nýtingu. Þetta svæði var með auglýsingu forsætisráðuneytisins, nr. 38/2007, dags. 16. jan. sl., tekið til borgaralegra nota og telst því ekki lengur varnarsvæði.

Í utanríkisráðuneytinu er ekki til skýrsla um ástand og mögulega nýtingu svæðisins. Það er verkefni Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., á grundvelli þjónustusamnings við fjármálaráðuneytið, að leiða þróun og skipulag þess með það að markmiði að fasteignir og svæðið sjálft komist hið fyrsta í arðbær borgaraleg not í sátt við nærliggjandi samfélög. Mér er kunnugt um að starf Þróunarfélagsins fer vel af stað og fjölmargar hugmyndir hafa borist félaginu á liðnum vikum og mánuðum.

Að lokum má nefna að varnarsvæði er enn þá skilgreint við Grindavík en það er eftir sem áður undir stjórn og á ábyrgð bandarískra hermálayfirvalda.