133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

varnarsvæði á Miðnesheiði.

526. mál
[12:45]
Hlusta

utanríkisráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju með þann jákvæða tón sem hefur verið í þessari umræðu. Það er ánægjulegt að hv. þingmenn skuli fyrst og fremst tala um tækifæri en ekki vandamál því samfara að varnarliðið er farið og að þarna séu miklar og verðmætar byggingar sem alla vega þessa stundina eru ekki í mikilli notkun. Það eru framtíðarmarkmið okkar að koma þessum byggingum í not og við sjáum ýmsa möguleika í þeim efnum.

Ég veit að hv. þingmaður hefur mikið álit á ríkisstjórninni og telur að hún hefði átt að láta vinna heildstæða úttekt á þessum byggingum öllum. Við kusum að fara þá leið að fela stjórn Þróunarfélagsins að halda utan um málið. Ég veit að það er komið heilmikið af hugmyndum og mikið starf hefur verið unnið af hálfu stjórnar Þróunarfélagsins. Ég er bjartsýn á að hægt verði að spila skynsamlega úr þessum hlutum en legg áherslu á að það er betra að vanda sig því að tækifærin eru svo margvísleg.

Hvað varðar mína sýn hef ég látið það koma fram á stórum fundi á Reykjanesi með sveitarstjórnarmönnum hvernig ég get að einhverju leyti séð þetta fyrir mér. Þá lagði ég mjög mikla áherslu á starfsemi sem er tengd alþjóðaflugvellinum. Það er óvanalegt að alþjóðaflugvöllur hafi svo mikið rými og þessi flugvöllur hefur og hafi með því svo mörg og mikilvæg tækifæri. Sú starfsemi sem þarna mun verða í framtíðinni mun áreiðanlega að verulegu leyti tengjast tækifærum sem snúa að flugrekstri. Þar fyrir utan, eins og hv. þingmaður nefndi og fleiri, eru möguleikar á sviði menntamála og fjölda annarra mála.