133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

alþjóðlegt bann við dauðarefsingum.

533. mál
[12:53]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hæstv. ráðherra. Hún talar sem fulltrúi ríkis þar sem ekki hafa verið dauðarefsingar í næstum tvær aldir og þar sem dauðarefsingar voru afnumdar árið 1928, ef ég man rétt eða a.m.k. á þriðja áratugnum. Hún talar almennt um þetta að við séum heldur á móti dauðarefsingum og höfum skrifað undir hina og þessa samninga í því efni.

En umræðan um dauðarefsingar hefur kviknað í kjölfar dauðadóms yfir Saddam Hussein sem hér var minnst á áður. Það er athyglisvert að hæstv. ráðherra eða ríkisstjórnin sem hún situr í hefur ekkert sagt um það mál, t.d. ekki tekið undir með Romano Prodi. Hæstv. utanríkisráðherra hefur reyndar sagt að þótt íslensk stjórnvöld séu almennt á móti dauðarefsingum þá hafi þessi karl átt það skilið og ekkert að því að finna því að sinn sé siður í landi hverju, ef ég má túlka ummæli ráðherrans nokkuð frjálslega. (Forseti hringir.) Við þetta verður illa unað, forseti, og væri betra að fá góð svör (Forseti hringir.) frá ráðherranum í þeirri umræðu sem nú stendur yfir.