133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

alþjóðlegt bann við dauðarefsingum.

533. mál
[12:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Kjarni málsins er sá að ég óska eftir því að íslensk stjórnvöld, með hæstv. utanríkisráðherra í broddi fylkingar, beiti sér af alefli fyrir því að sett verði alþjóðlegt bann við dauðarefsingum, að þeirri yfirlýsingu frá nýjum framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, verði lagt lið þar sem hann óskaði eftir því að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna legðu á alþjóðlegt bann við dauðarefsingum.

Aftakan á Saddam Hussein var ein af líklega 2.000 til 3.000, jafnvel 4.000 aftökum í heiminum á því ári. Það var ógeðslegur atburður sem minnti okkur á þá viðbjóðslegu grimmd sem felst í að dæma fólk til dauða. Það er grimmd sem á aldrei rétt á sér og þess vegna skora ég á hæstv. ráðherra að taka málið upp á alþjóðavettvangi og beita sér af fullum krafti fyrir því, um leið og íslensk stjórnvöld, þótt þau hafi stutt innrásina í Írak á sínum tíma, fordæmi aftökuna á Saddam Hussein, til marks um að íslensk stjórnvöld muni aldrei una því sem nútímalegt réttarríki að svo forneskjulegum og ómanneskjulegum aðferðum verði beitt til að refsa. Þær eru í hreinni andstöðu við mannréttindi, lýðræði og fyrirkomulag réttarríkisins í dag.

Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra að beita sér af fullum krafti í málinu, taka málið upp á vettvangi ríkisstjórnarinnar og á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og gerast fánaberi í þessu mikla mannréttindamáli á alþjóðavettvangi. Það þarf að leggja dauðarefsingar af og þær ættu að heyra sögunni til.