133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

þjóðvegur á Akranesi.

242. mál
[12:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Það er orðið nokkuð um liðið síðan ég sendi inn þessa fyrirspurn, ég hygg að það hafi verið í haust, og hún hefur ekki komist á dagskrá af ýmsum ástæðum. Það er hvorki við þingið né hæstv. ráðherra að sakast í þeim efnum, kannski frekar það að sá sem hér stendur hefur verið fjarverandi þegar hægt hefur verið að taka þetta mál fyrir en nú er loks komið að því.

Þessi fyrirspurn mín til hæstv. samgönguráðherra hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvað líður undirbúningi framkvæmda við nýjan þjóðveg (Þjóðbraut) inn í þéttbýli á Akranesi?“

Þetta er tiltölulega stuttur vegarkafli sem gert er ráð fyrir að verði innkoma af þjóðvegi inn í bæjarfélagið á Akranesi. Akranes hefur verið í mjög örum vexti undanfarin missiri. Í morgun bárust okkur þær gleðifréttir að fjöldi Akurnesinga væri nú kominn upp í 6 þús. Það fæddist barn í gær á Akranesi þannig að þessi múr hefur verið rofinn og það eru mikil gleðitíðindi.

Öllum þessum vexti og framkvæmdum fylgja náttúrlega þarfir fyrir að gera ákveðnar breytingar í skipulagi og öðru, m.a. hvað varðar innkeyrsluna í bæjarfélagið. Þjóðbrautin er tiltölulega stuttur vegarkafli sem liggur inn í bæjarfélagið, gamall vegur sem hefur verið áratugum saman, leifar af gömlum þjóðvegi ef svo má segja. Nú stendur til að setja þarna hringtorg og gera þetta að almennilegum vegi, innkeyrslu inn í bæinn. Beggja vegna við þennan veg hafa verið framkvæmdir undanfarin missiri, íbúahverfi hefur verið og er að rísa sunnan megin við veginn en norðan megin við hann er síðan verið að reisa verslunarhúsnæði og annað. Ástandið eins og þetta er núna er í raun orðið mjög slæmt því að við sjáum það náttúrlega fyrir okkur, við Akurnesingar — ég sem stend hér er Akurnesingur og bý á Akranesi — að verði þetta ekki klárað muni það skapa mjög mikil óþægindi fyrir íbúa, m.a. í þessu íbúahverfi sem er að rísa. Þetta mun líka skapa hættur, vegurinn er mjög slæmur, malarvegur eins og hann er í dag, og honum hefur kannski ekki verið haldið við sem skyldi einmitt vegna þess að yfirvöld, bæði bæjaryfirvöld á Akranesi og samgönguyfirvöld í landinu, hafa séð fram á að þarna yrðu gerðar almennilegar umbætur og byggður upp almennilegur vegur með öllu sem því fylgir.

Það er eins og að þessi mál séu núna í einhvers konar sjálfheldu þó að tíminn líði hratt og kröfurnar verði sífellt háværari og meiri um að farið verði í að klára þetta. Þetta er í sjálfu sér ekki mikið verk. Þetta er ástæðan fyrir því að ég taldi rétt að leggja fram þessa fyrirspurn og hún er enn í fullu gildi, þ.e. hvað líði nú undirbúningi framkvæmda við þennan nýja þjóðveg inn í þéttbýli á Akranesi.