133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

þjóðvegur á Akranesi.

242. mál
[13:02]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda spyr hann: Hvað líður undirbúningi framkvæmda við nýjan þjóðveg inn í þéttbýli á Akranesi?

Eftir ósk Akranesbæjar og í samkomulagi við Vegagerðina var tekin ákvörðun um að tengja og leggja þjóðveginn að hafnarsvæði Akraneskaupstaðar og tengja það þjóðvegakerfinu eftir nýrri leið með því að leggja nýjan hluta af þjóðveginum í gegnum byggðina og færa þannig frá meginviðskipta- og verslunarsvæðinu þá umferð sem fer um þjóðbrautina og niður á hafnarsvæðin og meginatvinnusvæðin. Það varð niðurstaða í samráði við þingmenn kjördæmisins að þjóðbrautin færðist með þessum hætti.

Undirbúningur þessa verkefnis hefur verið í gangi, hönnun verksins og gerð útboðslýsinga er að mestu lokið þannig að það ætti ekki að þurfa að líða langur tími þangað til hægt verður að fara í framkvæmdir. Hins vegar hafa bæjaryfirvöld óskað eftir því og boðið upp á það að ganga til samninga við Vegagerðina um þessa framkvæmd vegna þess að framkvæmdin er ekki með fjárveitingu á gildandi samgönguáætlun. Það er unnið að því að ná niðurstöðu og samkomulagi um hvernig þessari framkvæmd verður hagað eins og alvanalegt er og ég á ekki von á öðru en að það takist að koma þessari framkvæmd af stað mjög fljótlega eftir að samkomulag hefur náðst á milli Vegagerðarinnar og bæjaryfirvalda þar um.

Ég þakka því bara hv. þingmanni fyrir að leggja fram þessa fyrirspurn þannig að tækifæri fáist til að gera grein fyrir þessu. Ég hef lagt áherslu á það að þessu verki mætti ljúka, koma því af stað á þessum vetri þannig að það hafi ekki óæskileg áhrif á þá uppbyggingu og framvindu sem hefur orðið á þessu nýja athafnasvæði. Í þessu umhverfi rísa núna hús nánast í hverri viku.

En aðalatriðið, og ástæðan fyrir þessari breytingu, er hins vegar að beina meginþungaumferðinni eftir annarri braut en hefur verið í gegnum tíðina.