133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

strætisvagnaferðir milli Akraness og Reykjavíkur.

244. mál
[13:21]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil bara undirstrika alveg sérstaklega að auðvitað þarf að gæta alls öryggis í þessum fólksflutningum á vegum Strætós. Það getur ekki verið ásættanlegt að á sama tíma og við rekum á vegum Umferðarstofu mikinn og harðan áróður fyrir því að beltin séu spennt séu farþegar standandi í almenningssamgöngutækjum á þjóðveginum þar sem hámarkshraði er eins og við þekkjum. Ég vil bara að það komi skýrt fram af minni hálfu, eins og ég gat um, að Vegagerðin ætlast að sjálfsögðu til þess að alls öryggis sé gætt í þessum fólksflutningum sem eru styrktir af almannafé. Ég trúi ekki öðru en að fullur vilji sé til þess af hálfu flutningafyrirtækisins enda er mikil umferðaröryggisvakning í landinu og ég þekki það að sum fólksflutningafyrirtæki leggja metnað sinn í að sinna öryggis- og umhverfisþáttum. Fyrirtæki hafa verið verðlaunuð fyrir það þannig að ég vona svo sannarlega að það sé horft mjög til þess á þessari leið.

Að öðru leyti þakka ég fyrir þessa fyrirspurn. Hún vekur líka athygli á mjög merkilegu framtaki og mjög merkilegu samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Akraneskaupstaðar, Strætós og samgönguráðuneytisins sem varðar þá leið sem við þurfum að fara í því að auka almenningssamgöngurnar í landinu.