133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

búsetumál geðfatlaðra í Reykjavík.

284. mál
[13:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og ég þakka athugasemdir hv. þm. Dagnýjar Jónsdóttur. Það verður að segjast eins og er, og það hefur verið viðurkennt hér, að þetta hefur gengið óskaplega hægt og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem hafa fylgst með þessum málum hafa séð að á landsbyggðinni hafa hlutirnir gengið miklu hraðar fyrir sig eins og hefur verið viðurkennt í þessari umræðu.

Ég er hjartanlega sammála stefnumótuninni sem hefur farið fram hjá ráðuneytinu og ég fagna virkilega samningnum við AE-starfsendurhæfingu. Ég tel það allt vera í góða átt. En það er ekki viðunandi að hátt í hundrað manns bíði eftir úrræðum, sjötíu og eitthvað manns bíði eftir úrræðum og þar af hátt í þrjátíu á stofnun, jafnvel uppi á Landspítala. Auðvitað verður þetta að ganga mun hraðar og það er ekki viðunandi að höfuðborgarsvæðið og Reykjavík sitji eftir þó svo að fasteignamarkaðurinn sé erfiðari hér. Það hefur ríkt óvissa og það hefur ríkt uppnám á heimilum eins og á Flókagötunni þar sem búið er að lofa fólki fyrir löngu, fyrir tveimur árum, að bót verði ráðin á högum þess. Það verður að standa við loforð þegar þau eru gefin svona viðkvæmum hópum.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra áður en ég lýk ræðu minni: Hvernig verður háttað eignarhaldinu á þeim húsum sem keypt eru? Eru þau í eigu ríkisins, er það Öryrkjabandalagið eða hverjir eiga þetta húsnæði sem er verið að kaupa? Það þarf að upplýsa hér hvernig eignarhaldinu er háttað.

Að lokum, virðulegi forseti, óska ég eftir því að menn reyni nú að hraða sér. Það er ekki langur tími eftir hjá hæstv. ráðherra í ráðuneytinu og það er búið að lofa fólki því að þetta gerist mun fyrr en raunin hefur orðið. Ég hvet hæstv. ráðherra til að drífa í því að koma þessum málum í gott horf, að leysa vanda fólksins á Flókagötunni og allra þeirra sem bíða eftir úrræðum, sem eru allt of margir. Þetta er viðkvæmur hópur og hann á ekki að þurfa að líða fyrir það að bíða eftir úrræðum sem er búið að lofa fyrir löngu.