133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

búsetumál geðfatlaðra í Reykjavík.

284. mál
[13:36]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þann hug sem fram kemur til þeirrar framkvæmdaáætlunar sem við vinnum eftir. Ég get tekið undir að það er óæskilegt að fólk bíði eftir úrræðum, ég held að við séum öll sammála um það, en það er unnið eftir þessari framkvæmdaáætlun. Það er auðvitað ekki gott ef við náum ekki að halda taktinum samkvæmt henni, það er bara þannig. Að sjálfsögðu er það markmið okkar allra, sem vinnum að þessu, að okkur takist að fylgja áætluninni þannig að hún standist.

Þetta er fimm ára verkefni og við sem vinnum að þessu höfum orðið vör við mjög jákvæðan hug allra þeirra sem málið snertir. Það er mjög góður skilningur almennt gagnvart því að hlutirnir taka þennan tíma. Þetta fór af stað á síðasta ári og fólk hefur skilning á því. En ég skil vel óþreyju þeirra sem bíða langan tíma eftir úrræðum, það er eðlilegt. Við viljum sannarlega að hlutirnir gangi fljótt og vel fyrir sig og í takti við það sem lagt hefur verið upp með.

Varðandi eignarhald á íbúðunum er það mismunandi. Það er t.d. gert ráð fyrir því að í einhverjum tilvikum sé það Framkvæmdasjóður Öryrkjabandalagsins sem sé eigandi, í öðrum tilvikum ríkið o.s.frv. Það fer eftir þörfum og aðstæðum hverju sinni. Þegar húsnæði er keypt er skýrt tekið fram í þinglýsingu til hverra nota það er ætlað.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka málið upp og gefa okkur kost á að ræða það. Þetta er mikilvægt og gott mál og það er ánægjulegt að fá að taka þátt í því að hrinda því í framkvæmd. Ég vona að okkur takist að láta framkvæmdaáætlunina standast. Það er markmið okkar allra.