133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

stuðningsforeldrar.

306. mál
[13:38]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég legg fyrirspurn fyrir hæstv. félagsmálaráðherra um stuðningsforeldra. Það er mjög mikilvægt úrræði sem við eigum hér í samfélaginu að geta fengið stuðningsforeldra til þess að taka við börnum sem af einhverjum ástæðum geta ekki verið heima hjá sér öllum stundum. Bæði eru hér úrræði sem félagsmálastofnanir hafa á sínum snærum og svo einnig Svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra.

Þessa dagana, þegar við erum að ræða hve mikilvægt það er að vel sé búið að börnum sem eru send frá heimilum sínum á heimili annarra, er mikilvægt að fá upplýsingar um það hjá hæstv. félagsmálaráðherra hvaða skilyrði stuðningsforeldrar þurfi að uppfylla. Það kom mér nefnilega á óvart þegar kona nokkur kom að máli við mig og sagði mér að hún þyrfti ekki að uppfylla nein skilyrði þegar hún tæki að sér fatlað barn sem stuðningsforeldri. Hún hafði áður verið stuðningsforeldri fyrir Félagsmálastofnun þar sem kröfur voru mjög harðar um heilbrigðisvottorð, ég veit ekki hvort það var sakavottorð líka, og heimilið var skoðað. Þau þurftu að uppfylla mjög ákveðin skilyrði til þess að geta verið stuðningsforeldrar fyrir börn frá Félagsmálastofnun.

Þegar hún ákvað að verða stuðningsforeldri fyrir fatlað barn var aftur á móti ekki óskað eftir neinu. Hún orðaði það þannig við mig: „Það var bara eins og ég væri að fara að vinna í sjoppu, það var ekki beðið um neitt sérstakt“. Þessi kona er búin að vera stuðningsforeldri fyrir fatlað barn í þrjú ár og það hefur einu sinni verið komið heim til hennar og það var þegar endurnýja þurfti samninginn við hana.

Þetta vakti furðu mína og undrun og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra:

„1. Hvaða skilyrði þurfa þeir sem gerast stuðningsforeldrar að uppfylla?

2. Hvernig er eftirliti með stuðningsforeldrum háttað? Fer það fram reglulega?

3. Hvernig er greiðslum til stuðningsforeldra háttað, hversu háar eru þær og hvað er innifalið í þeim? Er litið á greiðslurnar sem laun eða kostnað við barnið? Eru þær skattlagðar eins og hverjar aðrar tekjur?“

Ég veit að fólk er ekki að taka að sér börn til þess að hafa af því einhvern hagnað en það er engu að síður fullkomlega eðlilegt að fá þessar upplýsingar hér.

Mig langar til að bæta við einni lítilli spurningu áður en tíma mínum lýkur og spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt að menn geti sett upp sumarbúðir fyrir börn án þess (Forseti hringir.) að fá sérstakt leyfi.