133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

stuðningsforeldrar.

306. mál
[13:47]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir þessi svör en ég vil gagnrýna það að ekki skuli vera sömu kröfur til stuðningsforeldra sem eru með fötluð börn í vist og til þeirra stuðningsforeldra sem taka börn á vegum Félagsmálastofnunar. Þó heimilt sé að óska eftir að heilbrigðisvottorði eða sakavottorði sé skilað þurfa að vera ákveðnar reglur um það og sambærilegar reglur. Ég held að fötluð börn séu ekki síður viðkvæm fyrir því ef þau lenda á heimilum sem eru kannski ekki alveg eins og við var búist. Það þarf auðvitað að fylgjast með þessum heimilum alveg eins og heimilum sem börn á vegum Félagsmálastofnunar eru send til.

Varðandi fræðsluráðgjöf veit ég til þess að foreldrum, sem tóku fatlað barn og hafa verið með það í þrjú ár, hefur ekki verið boðið upp á nein námskeið eða neitt í þá veru. Þau þekktu lítið til þeirrar fötlunar sem þetta barn, sem þau eru með og hafa verið með reglulega, var haldið. Því er greinilega þarna pottur brotinn að einhverju leyti. Tryggja þarf að fólk fái námskeið, það fái leiðbeiningar í þeim efnum sem snúa að fötlun þess barns sem það er með og það þarf að tryggja eftirlit. Nú er ég ekki að segja að það sé ekki allt í lagi hjá flestum þessum foreldrum, en engu að síður þarf eftirlit og virkt eftirlit. Það hefur sýnt sig í umræðum undanfarna daga að það sakar aldrei að vera með frekar meira eftirlit en minna þegar börn eiga í hlut, sem eru mjög viðkvæm fyrir því ef gengið er eitthvað á þeirra hlut.

En ég vil þakka ráðherra og spyrja (Forseti hringir.) aftur, af því að ég held að hann hafi ekki heyrt síðustu spurningu mína: Er það rétt að ekki þurfi leyfi (Forseti hringir.) til að setja upp sumarbúðir fyrir fötluð börn, hvort allir geti gert það án þess að fá nokkurt leyfi til þess?