133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

jafnréttisumsögn með stjórnarfrumvörpum.

487. mál
[13:58]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari fyrirspurn frá hv. þm. Merði Árnasyni og það er vissulega þörf á þeirri fyrirspurn vegna þess að mörg ár eru síðan það átti að vera komið til framkvæmda hjá ráðherrum að láta jafnréttisumsagnir fylgja frumvörpum og hvaða áhrif mál sem þeir leggja fram á hinum ýmsu sviðum hafa á stöðu kynjanna. Ég man ekki eftir einni einustu slíkri umsögn. Mér heyrist nú á hæstv. ráðherra að lofað sé bót og betrun, en satt að segja miðað við fyrri reynslu hefur maður litla trú á að nokkuð verði framkvæmt í því efni. Þetta er sama og með fjölskylduráðið sem á að vera ráðuneytum og ráðherrum til aðhalds og trausts að því er varðar málefni fjölskyldnanna. Ég held að fjölskylduráð hafi ævinlega verið hunsað og sjaldnast leitað til þess með ráð að því er varðar stjórnarfrumvörp eða umsagnir um stjórnarfrumvörp.

Ég vil líka spyrja ráðherrann, af því að síðast þegar við samþykktum jafnréttisáætlun var lögð á það áhersla af félagsmálanefnd, sem fór yfir það mál um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum, að ráðherrarnir yrðu sendir allir sem einn á námskeið í jafnréttismálum, ég vil spyrja hvort slíkt námskeið hafi farið fram.