133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

jafnréttisumsögn með stjórnarfrumvörpum.

487. mál
[13:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Mér kemur á óvart hvernig hæstv. ráðherra svarar þessu. Þannig er að samþykkt hefur verið ályktun að frumkvæði félagsmálaráðherra sem þá var. Í henni segir, hún gildir frá árinu 2004–2008, að félagsmálaráðherra muni sjá til þess að komið verði á reglubundnu mati á stjórnarfrumvörpum með tilliti til jafnréttis kynjanna. Jafnréttisumsögn verði gerð. Það var ekkert talað um gátlista. Nú talar ráðherrann um að gátlistinn sem kynntur var árið 2004 sem verkfæri í þessu skyni sé að vísu væntanlegur á rafrænu formi og í bæklingi og sé nú í prentun eða að komast í prentun, en það var ekki samþykkt neitt um gátlista. Alþingi hefur aldrei samþykkt nokkurn skapaðan hlut um gátlista og lætur sér ekki nægja það, forseti, að hæstv. félagsmálaráðherra komi með einhvern lista þar sem á að exa við einhverjar tölur.

Það sem Alþingi samþykkti árið 1998 og árið 2004 var að félagsmálaráðherra kæmi á jafnréttisumsögn um stjórnarfrumvörp. Hvar er sú jafnréttisumsögn? Það er því miður ekki nóg að mæta hér með gátlista. Það sem ráðuneytin eiga að gera og undir stjórn hæstv. félagsmálaráðherra samkvæmt ályktun Alþingis, fyrst frá 1998 og síðan frá 2004, er að undirbúa jafnréttisumsögn. Ef félagsmálaráðherra vill — og alls konar nefndir sem hann hefur skipað eða hann styðst við og hafa unnið örugglega gott starf, ég veit að þær hafa gert það sumar — leggja til að aðferðir ráðuneytismanna séu þær að viðhafa gátlista, þá er það bara gott og blessað. En þingið bað ekki um það. Þingið bað um jafnréttisumsögn og ég tel með þeim öðrum sem um þetta hafa fjallað, að slík umsögn gæti gert mikið gagn í jafnréttismálum. Ég skil ekki hvers vegna níu ár eru liðin (Forseti hringir.) hjá félagsmálaráðherrum, þremur eða fjórum eða hvað þeir eru margir, (Forseti hringir.) án þess að þetta hafi verið gert.