133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

heilbrigðisstofnun Suðurlands.

164. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Nú er sá tími liðinn sem íbúar á Suðurlandi og þingmenn gerðu sér von um að sagan sem virtist vera endalaus tæki enda. Það átti að vígja og taka í notkun viðbyggingu við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Þar var um að ræða tveggja hæða viðbyggingu sem á að hýsa hjúkrunardeild fyrir aldraða sem nú er rekin í gamalli byggingu sem hýsti Sjúkrahús Suðurlands hér á árum áður, þ.e. Ljósheimar, en einnig átti viðbyggingin að hýsa aðra starfsemi stofnunarinnar sem býr við þröngan kost.

Það vita allir sem til þekkja að aðstæður aldraðra sjúklinga og starfsfólks á Ljósheimum eru fyrir neðan allar hellur. Það liggur fyrir að ár eftir ár hefur Heilbrigðiseftirlitið á Suðurlandi gert athugasemdir við húsnæðið og aðbúnað sjúklinga og starfsmanna. Það sama á við um vinnu og brunavarnir. Litlar endurbætur hafa verið gerðar enda hafa ekki fengist fjárveitingar til þess verkefnis. Vísað var til þess í fyrstu að fyrirhugað væri að byggja við sjúkrahúsið deild fyrir þá sem dvelja á Ljósheimum en nú seinna árið að verið væri að byggja deild.

Vegna mikillar þarfar á fjölgun hjúkrunarrýma fyrir aldraða á Suðurlandi var tekin ákvörðun um að bæta þriðju hæðinni við bygginguna. Vegna þessarar ákvörðunar stöðvuðust framkvæmdir óhóflega lengi meðan á hönnunarvinnu stóð. Í upphafi þegar framkvæmdirnar hófust var því lýst yfir að í byrjun febrúar 2007 yrði byggingin tekin í notkun, aldraðir sjúklingar færðir frá Ljósheimum og heilsugæslan, sem einnig býr við óviðunandi vinnuaðstæður, fengi betra rými og fleiri þættir í húsnæðismálum þessarar mikilvægu starfsemi yrðu færðir til betri vegar.

Þessi tími er liðinn og nú viljum við, hæstv. ráðherra, fá tímaáætlanir fyrir þessar framkvæmdir, tímaáætlun sem stenst.

Því spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hvenær eru áætluð verklok einstakra verkáfanga viðbyggingar við heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi?

2. Hvenær má vænta að hægt verði að taka í notkun húsnæði fyrir þá einstaklinga sem nú dvelja á hjúkrunardeildinni Ljósheimum á Selfossi?

3. Hver er áætluð þörf fyrir hjúkrunarpláss fyrir aldraða og langlegusjúklinga á svæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á næstu fimm árum?

4. Hvaða áform eru uppi um áframhaldandi byggingu hjúkrunarheimila á svæðinu?