133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

heilbrigðisstofnun Suðurlands.

164. mál
[14:29]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrstu spurningu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, þá er því til að svara að framkvæmdir við viðbyggingu við sjúkrahúsið á Selfossi voru boðnar út í október 2004 og átti þeim að ljúka 1. febrúar síðastliðinn.

Þá var áformað að viðbyggingin yrði tvær hæðir og kjallari. Á neðri hæðinni var fyrirhugað að yrði heilsugæslustöð en á efri hæðinni átti að vera hjúkrunarheimili með 26 vistrýmum þar af 14 í tveggja manna herbergjum. Útboðsverkið tók til alls frágangs hússins að utan og innréttinga á efri hæð þess, það er hjúkrunarheimilinu.

Um áramótin 2005–2006 kom fram tillaga um byggingu þriðju hæðar á viðbygginguna og stækka þar með hjúkrunarheimilið auk þess sem eingöngu yrðu eins manns herbergi í viðbyggingunni, en það er sá stíll sem við vinnum eftir núna, að byggja ný eins manns rými en ekki tveggja manna herbergi.

Fljótlega eftir áramót voru framkvæmdir við húsið stöðvaðar meðan verið var að komast að niðurstöðu um hvort ráðist skyldi í þessa viðbót eða ekki enda var uppsteypu annarrar hæðar þá lokið og ekki unnt að halda verkinu áfram fyrr en framhald yrði ákveðið.

Í mars var tekin ákvörðun um að ráðast í byggingu þeirrar hæðar, m.a. til að koma því þannig fyrir að þetta yrðu eins manns herbergi og tók þá við hönnun hæðarinnar.

Hinn 20. september síðastliðinn lágu fyrir hönnunargögn, samningsdrög við verktaka og heimild til framkvæmda og hófust byggingarframkvæmdir þá að nýju. Við þessa stækkun hússins verða samtals 40 rými í eins manns herbergjum á báðum hæðum hjúkrunarheimilisins. Unnt verður að opna á milli samliggjandi herbergja á fjórum stöðum á hvorri hæð þannig að allt að átta hjón eða sambýlisfólk gætu fengið slíka aðstöðu ef þess þarf.

Umsaminn skiladagur á verkinu er nú 1. október 2007. Stefnt er að því að ljúka innréttingu hinnar hæðar hjúkrunarheimilisins svo fljótt sem unnt er og helst á þessu ári eða fyrir mitt næsta ár.

Miðað við núverandi fjárveitingar til nýbygginga á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og önnur verk sem verið er að vinna er ekki unnt að reikna með að framkvæmdir við innréttingu húsnæðis heilsugæslunnar hefjist fyrr en 2009 eða 2010, og þeim ljúki það ár nema það komi til aukið fjármagn.

Varðandi aðra spurningu hv. þingmanns er því til að svara að eins og áður sagði verður framkvæmdum við aðra hæð hjúkrunardeildar lokið 1. október 2007, og verður þá unnt að flytja vistmenn af Ljósheimum í þau 20 rými sem þá verða til. Seinni hæðin verður vonandi fullgerð fáum mánuðum síðar.

Í þriðja lagi er spurt hver sé áætluð þörf fyrir hjúkrunarpláss fyrir aldraða og langlegusjúklinga á svæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á næstu fimm árum. Eins og fram hefur komið er unnið að framkvæmdum við Sjúkrahús Suðurlands á Selfossi þar sem samtals verða 40 hjúkrunarrými sem áætlað er að verði öll komin í notkun í lok næsta árs. Fjöldi hjúkrunarrýma á svæði Heilbrigðisstofnunar Suðurlands svarar nú til þess að 8,27 hjúkrunarrými séu á hverja 100 íbúa sem eru 67 ára og eldri. En landsmeðaltalið er 8,13.

Þegar nýju hjúkrunarrýmin á Selfossi verða tilbúin fer hlutfallið í 9,13 rými á hverja 100 íbúa 67 ára og eldri. Það verður þá komið yfir landsmeðaltalið. Að mati ráðuneytisins er ekki þörf fyrir fleiri hjúkrunarrými á svæðinu á næstu fimm árum nema eitthvað stórfenglegt eigi sér stað í tilflutningum fólks sem maður getur svo sem aldrei alveg útilokað

Í fjórða lagi spyr hv. þingmaður hvaða áform séu um áframhaldandi byggingu hjúkrunarheimila á svæðinu. Því er til að svara að nýlega kynnti ég áætlun um uppbyggingu hjúkrunarrýma til ársins 2010. Samkvæmt þeirri áætlun verður áhersla á að byggja upp rými þar sem brýnust þörf er. Þau rými eru m.a. á Suðurlandi, þ.e. á Selfossi. Þar var úthlutað 20 nýjum rýmum, m.a. til þess að fara í þriðju hæðina á hjúkrunarheimilinu. Við höfum því þau rými til ráðstöfunar en ég get ekki svarað því hvað verður eftir að því tímabili lýkur.

Í pípunum núna er að klára það verk sem hafið er. Verkið hefur að vissu leyti tafist en það er m.a. vegna þess að ákveðið var má segja í miðjum klíðum að bæta hæð ofan á. Það var gert vegna þess að við vildum ekki halda áfram með þau plön sem voru á borðinu um að hafa tvo í herbergi heldur bjóða öllum upp á eins manns herbergi.

Ég held að þessi töf hafi verið af hinu góða. Ég held að byggingin verði miklu betri fyrir vikið og betur verði hlúð að vistmönnunum þar sem um einstaklingsrými verður að ræða.