133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

heilbrigðisstofnun Suðurlands.

164. mál
[14:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þó ég harmi þær tafir sem verða á fullri nýtingu þessa húss. Þeir sem vinna á heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands búa við afar þröngan kost. Ég hugsa að Vinnueftirlitið og Heilbrigðiseftirlitið gætu varla fallist á þær aðstæður sem þar eru þó um heilbrigðisstofnun sé að ræða.

Þegar hæstv. ráðherra segir að hlutfall rýma á íbúa svæðisins stefni í að verða hærra að meðaltali en gerist annars staða, þá bendi ég á að það hefur a.m.k. viljað brenna við í ráðuneytinu og þeim stofnunum sem hafa verið að taka út þennan fjölda rýma sem eru fyrir Sunnlendinga, að taldar eru með stofnanir t.d. á Stokkseyri og í Hveragerði, þar sem er að langstærstum hluta um að ræða fólk sem kemur af öðrum svæðum. Þau rými eru talin og sett inn í meðaltalið fyrir íbúa á Suðurlandi. Telur hæstv. ráðherra það réttlætanlegt?

Staðan núna er sú að a.m.k. tveir ef ekki þrír, fjórir einstaklingar frá Hveragerði hafa verið fluttir hreppaflutningum og eru núna á stofnun fyrir aldraða austur á Klaustri og mjög öldruðum aðstandendum er gert að sinna sínu fólki og keyra 200 kílómetra hvora leið til að geta farið í heimsókn til ástvina og við erum að tala um aldrað fólk. Þetta er ástandið á Suðurlandi í dag. Ég tel að ekki eigi að bjóða öldruðum upp á slíkt og að fara þurfi í verulegar úrbætur nú þegar og flýta framkvæmdum þannig að öll rýmin á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi verði tekin í notkun í haust og hægt sé að búa öldruðum þær aðstæður að þegar þeir leggist inn á slíkar stofnanir (Forseti hringir.) séu þeir nálægt aðstandendum sínum.