133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

rekstur heilbrigðisstofnunar Suðurlands.

165. mál
[14:42]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni áðan að bæði spurningar og svör bera það með sér að liðið hefur svolítill tími síðan fyrirspurnirnar komu fram.

Hvort búið sé að leiðrétta rekstrarhallann sem var til staðar þegar heilsugæslustöðvar á Suðurlandi voru sameinaðar í Heilbrigðisstofnun Suðurlands er því til að svara að Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð til 1. september 2004 þegar sameinaðar voru heilbrigðisstofnanir á Selfossi og heilsugæslustöðvarnar á Kirkjubæjarklaustri, Vík í Mýrdal, Rangárþingi, Laugarási, Hveragerði og Þorlákshöfn.

Við sameiningu var höfuðstóll Heilbrigðisstofnunar Suðurlands neikvæður um 19,6 millj. kr. Rekstrarhalli heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi var 21,8 millj. kr., en rekstrarstaða heilsugæslustöðvanna í heild var jákvæð um 2,2 millj. kr. Staða einstakra heilsugæslustöðva var frá því að vera neikvæð um 5,9 millj. kr. þar sem hallinn var mestur til þess að vera jákvæð um 9,3 millj. kr.

Rekstrarhallinn var ekki bættur við sameininguna og var beðið með ákvörðun um frekari fjárveitingar til stofnunarinnar vegna vinnu við gerð reiknilíkans ráðuneytisins um fjárveitingar til heilsusgæslustöðva og heilbrigðisstofnana sem við vorum einmitt að ræða í fyrirspurn rétt áðan.

Þá er spurt: „Hve mikill var rekstrarhallinn á núvirði? Ef hann var ekki bættur, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að það verði gert?

Rekstrarhalli stofnana við sameiningu var 19,6 millj. kr. eins og áður sagði, eða 21,9 millj. kr. á núvirði. Rekstrargrunnur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands reyndist lægri en niðurstaða reiknilíkans ráðuneytisins um fjárveitingar til heilsugæslu og heilbrigðisstofnana sagði til um, þ.e. reiknilíkanið sýndi að stofnunin átti að fá meira fjármagn. Í fjárlögum ársins 2007 voru á grundvelli reiknilíkansins fjárveitingar hækkaðar um 37,5 millj. eins og sagði í fyrra svari. Og í fjáraukalögum voru settar til stofnunarinnar 144, 7 milljónir vegna uppsafnaðs rekstrarhalla.

Eftir að búið var að sameina stofnanirnar og reiknilíkanið varð til, er bæði búið að greiða upphæðir upp á tæplega 145 millj. kr. upp í uppsafnaðan halla sem var að sjálfsögðu m.a. vegna þess að stofnanirnar, sumar þeirra, voru að fá of lítið, aðrar fengu aðeins of mikið á svæðinu, en í heildina of lítið. Búið er að leiðrétta það með þessu framlagi.

Síðan er búið að setja inn í grunninn 37,5 millj. kr. en reiknilíkanið segir að það vanti 37,8 millj. kr. Það er því komið til móts við reiknilíkanið þó muni þarna 300 þús. kr. sem ég tel að sé nú óþarfi að eltast beint við. Reiknilíkanið er að skila því til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að hún fær hærri fjárveitingar. Það er í samræmi við réttlætið að mínu mati.

Það eru fleiri stofnanir sem fá hærri fjárveitingar. Ég get nefnt Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, St. Jósefsspítala, hægt er að nefna Hólmavík og fleiri staði, Heilbrigðisstofnun Austurlands. Þetta eru allt stofnanir sem hafa sagt við heilbrigðisyfirvöld í gegnum langan tíma, þar sem þær hafa verið fyrir hendi, að það hafi verið vitlaust gefið. Þær hafi fengið of lítið. Það var bara rétt hjá þeim. En að sama skapi skal halda því til haga að aðrar stofnanir hafi fengið of mikið. Þær komu aldrei og sögðu við heilbrigðisyfirvöld, við fáum of mikið, við viljum gjarnan fá aðeins minna. Það hefur ekki verið sagt.

En við þurfum á næstu árum að leiðrétta það líka til að allir fari eftir reiknilíkaninu. Ég tel að þetta reiknilíkan sé stórkostlegt tæki. Það veldur því að við útdeilum fjármagni eftir réttlæti og rökum en ekki eftir þrýstingi hvorki einstakra stjórnenda á stofnunum né þingmanna eða annarra, sveitarstjórnarmanna o.s.frv.

Ég er mjög ánægð hvað við erum komin langt með reiknilíkanið og hvað forstöðumenn eru í heildina ánægðir með það. Auðvitað eru einhverjir hnökrar á því og við þurfum að skoða þá hnökra betur. En almennt eru allir aðilar ánægðir með að við skulum vera með stjórntæki sem sýnir réttlæti í þessu málum.