133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

áhrif gengisþróunar á rekstrarafkomu heilbrigðisstofnana.

166. mál
[14:54]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er síðasta fyrirspurnin í þessu tveggja manna tali okkar hæstv. ráðherra um rekstur heilbrigðisstofnana. Ég tek undir þau orð sem hér hafa komið fram að Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur veitt afburðaþjónustu.

Þessi fyrirspurn er eins og hinar lögð fram í október og ber þess merki.

Á hverju ári þegar líða tekur að hausti upphefst umræðan um rekstrarvanda heilbrigðisstofnana, oft á þeim forsendum að um sé að ræða óstjórn, óráðsíu með þá fjármuni sem fást á fjárlögum hvers árs til að reka þessar stofnanir. Beint og óbeint liggja stjórnendur stofnana undir ámæli stjórnvalda, jafnvel hv. þingmanna, vegna þessa. Umræðan tekur aldrei mið af því hlutverki sem heilbrigðisstofnun er ætlað að sinna samkvæmt lögum, kannski ekki nema von þar sem sjaldan er tekið fullt tillit til lögbundinna verkefna ríkisstofnana við ákvörðun fjárlaga fyrir hvert ár og auðveldara að kenna stjórnendum um en óábyrgri ákvarðanatöku þeirra sem fara með framkvæmda- og fjárveitingavaldið.

Það hlýtur oft að vera erfitt fyrir stjórnendur heilbrigðisstofnana að standa frammi fyrir því að ákveða hvort stofnun vinni í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu og virði rétt sjúklinga til bestu fáanlegu heilbrigðisþjónustu sem tök eru á að veita hverju sinni eða fjárlög sem eru svo knöpp að ógerningur er að stofnunin geti staðið við sitt án þess að eyða umfram ákveðin framlög ríkisins til verkefna hennar. En það eru aðrir þættir en veitt þjónusta sem geta og hafa áhrif á rekstur heilbrigðisstofnana, þættir sem stjórnendur þeirra ráða engan veginn við eins og t.d. ákvarðanir stjórnvalda í efnahagsmálum og ýmsir aðrir þættir.

Á síðasta rekstrarári heyrðum við að gengisþróun hefði haft veruleg áhrif á rekstur heilbrigðisstofnana. Ef ekki kæmi til leiðréttingar þyrfti annaðhvort að draga verulega úr þjónustu eða búa við rekstrarhalla, jafnvel hvort tveggja. Áhrif gengisþróunar á rekstur heilbrigðisstofnana á ekki að leggja á herðar stjórnenda þeirra eða láta bitna á þjónustu við sjúklinga, það er ekki réttlætanlegt. Því spyr ég:

Hver voru áhrif gengisþróunar á rekstrarafkomu heilbrigðisstofnana á Suðurlandi og Suðurnesjum árið 2005 og það sem af er 2006? Það er sem sagt liðið. Á hvern hátt hyggst ráðuneytið bregðast við áhrifum gengisþróunar á rekstur heilbrigðisstofnana?