133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

áhrif gengisþróunar á rekstrarafkomu heilbrigðisstofnana.

166. mál
[15:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin í heild sinni við þeim fjórum fyrirspurnum sem hún hefur nú svarað.

Ég get tekið undir það að vissulega hefur verið tekið á til að leiðrétta grunninn og var löngu kominn tími til. En eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra, þó að ég væri ekki að spyrja sérstaklega um LSH, þá held ég að öllum hafi verið það kunnugt og það hefur reyndar verið tekið rækilega fyrir áður í fjárlagaumræðunni að rekstrarhalli Landspítala – háskólasjúkrahúss, var m.a. vegna neikvæðra áhrifa gengisþróunar á síðasta ári settur milljarður í fjáraukalögin og milljarður inn í grunninn. Ég get hins vegar ekki fallist á að sú leiðrétting sem fékkst í gegnum reiknilíkanið feli í sér leiðréttingu á þeim halla sem safnast hefur upp hjá stofnunum eins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem ég spurði sérstaklega um, og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, vegna þess að þessar stofnanir hafa ekki fengið framlög til að sinna lögbundnum verkefnum og síðan er þarna líka neikvæður gengismunur sem hefur haft veruleg áhrif á reksturinn á síðasta ári. Það er kannski hluti af skýringunni á því að Heilbrigðisstofnun Suðurlands býr við 70 millj. kr. halla núna, þrátt fyrir þær leiðréttingar sem hafa fengist. Það segir manni að einhvers staðar er pottur brotinn og það verður að taka enn frekar á og kannski ekki hvað síst þegar neikvæð áhrif gengisþróunar eru svona afgerandi á rekstur heilbrigðisstofnana eins og þau voru á síðasta ári. Það er útilokað að leggja það á herðar stjórnenda að mæta því þegar um svona mikinn mun er að ræða, vegna þess að það getur ekki bitnað á neinu öðru en þeirri þjónustu sem á að veita sjúklingum og það getum við undir engum kringumstæðum réttlætt. Það mun bara verða til þess að hallinn eykst og safnast upp. Það verður að taka sérstaklega á þessum 70 millj. halla hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands svo hún geti sinnt verkefnum sínum, a.m.k. þeim þætti sem er vegna neikvæðrar gengisþróunar á síðasta ári.

Virðulegi forseti. Enn og aftur, ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem ég hef fengið en minni á að ég fékk ekki svör við því hvort ráðherra telur það ásættanlegt að aldraðir séu fluttir hreppaflutningum 200 kílómetra og skildir að frá aðstandendum sínum vegna plássleysis í öldrunarþjónustu á Suðurlandi.