133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

áhrif gengisþróunar á rekstrarafkomu heilbrigðisstofnana.

166. mál
[15:04]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Varðandi gengisþróunina þá var það svo að um tíma var hún hagstæð stofnununum, þ.e. þær höfðu úr meiru að spila út af gengisþróuninni, en síðan varð hún neikvæð um tíma. Auðvitað er erfitt að búa við það í rekstri að vita ekki alveg hvernig gengið sveiflast en þetta gengur yfir allar ríkisstofnanir, ekki aðeins þær sem sinna heilbrigðisþjónustu. Við höfum komið til móts við þessa stöðu eins og okkur hefur verið unnt en áfram er halli á einhverjum stofnunum eins og svo oft áður en það var gert mjög mikið átak í fjárlagagerðinni í haust við að skera niður hallana, mjög myndarlegt átak. Fyrir það vil ég þakka þinginu sérstaklega sem auðvitað afgreiðir fjárlög hverju sinni.

Varðandi aldraða og vistunarmál þeirra þá tel ég að á Suðurlandi séu margar mjög öflugar öldrunarstofnanir sem sinna öldruðum með glæsilegum hætti. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það líka mjög vel. Ég get nefnt sérstaklega stofnanir sem ég hef nýlega heimsótt, bæði á Kirkjubæjarklaustri og Hvolsvelli. Nýlegar glæsilegar stofnanir þar sem rýmin eru stór og mjög vel búið að fólki. Nú er verið að byggja á Selfossi ný rými og þar mun bráðlega verða tekin í notkun mjög glæsileg stofnun þar sem við getum hlúð betur að öldruðum en verið hefur. Auðvitað viljum við bjóða upp á þjónustu sem næst þeim stað sem sá aldraði býr, það er meginstefnan, en ég ítreka það sem kom fram fyrr í dag að við eigum sinna heimaþjónustunni meira. Fólk á að vera lengur heima hjá sér. Aldraðir sækjast eftir því. Þeir vilja helst vera heima eins lengi og fært er en þá þarf að auka þjónustuna heima. Við erum að auka hana hjá heimahjúkruninni sem er á ábyrgð ríkisins en helmingur sveitarfélaga hefur dregið úr félagslegri heimaþjónustu til aldraðra og ég tel að sveitarfélögin verði að standa sig betur að þessu leyti. Sum eru að gera góða hluti og hafa aukið þjónustuna en meira en helmingur þeirra hefur minnkað hana og það er grafalvarlegt mál að mínu mati.