133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

heilsufar erlendra ríkisborgara.

445. mál
[15:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl) (ber af sér sakir):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta mjög ómakleg og óþolandi ummæli af hálfu hæstv. heilbrigðisráðherra að þetta efni sé tekið til umræðu í þingsölum og verið að ásaka mig um að ég sé með því að reyna að skapa neikvæða umræðu eða koma óorði á fólk, jafnvel að ég sé að ala á einhverri mannfyrirlitningu eða hatri í garð tiltekins fólks.

Við erum hér að ræða hluti sem eru hreinlega staðreyndir. Ég tel það vera skyldu mína, hæstv. heilbrigðisráðherra, að taka upp mál í þinginu sem varða almannaheill í landinu, sama hvort hæstv. heilbrigðisráðherra þykir það við hæfi eða ekki. Ég er kjörinn hingað á þing, kjörinn fulltrúi af kjósendum í landinu og það er mitt hlutverk að gæta hagsmuna þeirra. Ég mun ekkert hvika frá því, hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er bara eðlilegt og sjálfsagt að þessir hlutir séu ræddir.

Ég flutti mjög málefnalega inngangsræðu, benti á staðreyndir máli mínu til stuðnings og þess vegna þykir mér það mjög ómaklegt og ósanngjarnt að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli þá nota tækifærið í einhverjum pólitískum hráskinnaleik til að koma óorði á þingflokk Frjálslynda flokksins, eins og við heyrðum reyndar ritara Framsóknarflokksins gera á Rás 2 í Ríkisútvarpinu í gær. Þetta leiðir ekki til neins, þetta er ósanngjarnt og ég vísa þessu hreinlega út í hafsauga.