133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

afsláttarkort vegna lækniskostnaðar.

483. mál
[15:35]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þessi svör. Hér kemur fram að sjálfkrafa afgreiðsla á afsláttarkortunum verður ekki komin í gagnið fyrr en tveimur árum síðar en hæstv. heilbrigðisráðherra tilkynnti um fyrir rúmu ári, tveimur árum seinna. Auðvitað er rétt að það er mikið hagræði í því að fólk fái afsláttarkortin sjálfkrafa og þá vegna alls kostnaðar sem veita rétt til þeirra.

Mjög margir geta ekki borið sig eftir þeim. Margir geta ekki safnað kvittunum vegna sjúkdóma, vegna fötlunar o.s.frv. Það er mjög mikið réttlætismál að koma þessu á sem fyrst og ég vonast til að þetta geti orðið fyrr en um næstu áramót, þ.e. eftir ár héðan í frá. Þó svo að 1. mars geti menn fengið sjálfkrafa öll útgjöldin frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi eða 70% þeirra, dugar það heldur ekki til eins og við vitum. Ekkert frekar en að fá bara sjálfkrafa upplýsingarnar og kortin vegna sérfræðiþjónustunnar. Það þarf allar upplýsingarnar til að fólk geti fengið þessi kort sjálfkrafa. Það er alveg ljóst.

Ég hvet til þess að farið verði fljótt í að gangast fyrir þessu. Ég spyr hæstv. ráðherra eins og ég gerði áðan og fékk ekki svar við, enda var það ekki í skriflegu fyrirspurninni: Hvenær má gera ráð fyrir að hætt verði að miða við almanaksárið? Ég er með dæmi sem mér barst í gær um fullorðna konu sem var búin að vera mikið hjá læknum í desember og fór svo til læknis í janúar og hélt að hún væri komin með afsláttarkort en þá þurfti hún að byrja að safna upp á nýtt frá 1. janúar. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvenær getum við miðað (Forseti hringir.) við tólf mánuði eins og t.d. sjúkraþjálfarar gera og ýmsir fleiri í kerfinu?