133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

afsláttarkort vegna lækniskostnaðar.

483. mál
[15:37]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér kom fram að ekki dugir að einungis Landspítalinn fari inn í kerfið, það þurfa allir að vera í því. Ég vil minna á í þessari orðræðu að rétturinn er fyrir hendi, alveg skýr. Menn geta því nýtt sér þennan rétt. Auðvitað er hagræði að því að þurfa ekki að halda reikningunum saman sjálfur og ná í kortið. Það eru aukaþægindi að nýta sér réttinn sem við erum að ræða hér og við ætlum að reyna að koma á.

Maður vill auðvitað gjarnan nota nútímatækni. Þetta er ekki mikið mál ef tölvukerfin eru þannig útbúin að þau senda frá sér upplýsingarnar og þær safnast á einn stað í Tryggingastofnun ríkisins, þannig að stofnunin geti séð hvenær hámarksgreiðslunni er náð og hvenær menn eiga rétt á afsláttarkortinu. Það er alveg skýrt að rétturinn er til staðar og menn geta nýtt sér hann og það verður auðvitað áfram en þetta léttir lífið. Þetta verður þægilegra fyrir sjúklingana sem nota þjónustuna.

Hvað varðar spurninguna um almanaksárið þá get ég ekki svarað því hér og nú nákvæmlega hvenær það verður unnt. Þetta eru mál sem við höfum verið að skoða í ráðuneytinu. Það eru væntingar um að þessu verði breytt. Ég skil vel þá sem hafa lent í miklum kostnaði við lok árs og í byrjun næsta árs og detta þarna á milli, þá skiptist greiðslan á tvö ár en ekki á eitt ár eða tólf mánuði. Ég get ekki svarað því hér og nú hvernig við munum koma því fyrir í framtíðinni. Væntanlega þarf lagabreytingu til þó að ég viti það ekki alveg en ég get ekki svarað því að þessari stundu, (Forseti hringir.) enda var þetta ekki heldur í fyrirspurninni.