133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

rannsóknir á sjófuglum.

254. mál
[15:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um rannsóknir á sjófuglum. Þannig er mál með vexti að ég hef haft nokkrar áhyggjur af ástandi sjófuglastofna umhverfis landið nokkur undanfarin missiri. Við höfum séð að lífríkið er ekki alveg eins og það á að sér að vera, ef svo má segja. Við höfum séð að fuglarnir eiga víða í vandræðum með æti um sumartímann, sjófuglarnir og einnig krían, sem að vissu leyti er sjófugl líka, a.m.k. finnur hún fæðu sína í hafinu.

Það er augljóst að eitthvað hefur verið að, e.t.v. fæðuskortur. Það er mjög óvenjulegt þegar kríuvarp misferst víða um land. Það er líka óvenjulegt að sjá máva á beit á túnum og umferðareyjum og inni í görðum hjá fólki margar vikur á sumri hverju. Það er óvenjulegt að sjá varp misfarast hjá fuglategundum og að ungadauði sé mikill og annað þar fram eftir götunum.

Við höfum rætt þessi mál áður á hinu háa Alþingi. Fram hafa komið fyrirspurnir, bæði frá þeim sem hér stendur og einnig frá öðrum þingmönnum, varðandi þessi mál þar sem við þingmenn höfum verið að reyna að brydda upp á umræðu og nálgast hana frá ýmsum sjónarhornum vegna þess það hafa náttúrlega fleiri en sá sem hér stendur tekið eftir því að ástandið er óvenjulegt.

Fyrirspurn mín snýr sérstaklega að Vestmannaeyjum sem eru eitt af dýrustu djásnunum í náttúru Íslands. Fuglalíf er þar mikið eins og við vitum og stórfengleg náttúra og fegurð hvert sem litið er. Fuglarnir í Vestmannaeyjum skipta miklu máli, bæði sem búsílag og líka sem augnayndi. Þess vegna fýsir mig að vita hjá hæstv. umhverfisráðherra hvaða rannsóknir hafi verið gerðar undanfarin fimm ár á ástandi og lífsháttum sjófugla sem verpa í Vestmannaeyjum og hvort hæstv. ráðherra hyggist beita sér fyrir auknum rannsóknum á þessum fuglastofnum og þá hvaða.

Auðvitað hafa verið gerðar rannsóknir þarna í gegnum árin. Ég vil nota tækifærið til að minnast sérstaklega á þær miklu athuganir og víðtæku merkingar sem Óskar vitavörður í Stórhöfða hefur staðið fyrir. Hann hefur skilað miklu og drjúgu verki og á fullan heiður skilinn fyrir það. Mér þætti vænt um að fá fleiri og nánari upplýsingar um þetta frá hæstv. ráðherra.