133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

rannsóknir á sjófuglum.

254. mál
[15:43]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spyr mig um rannsóknir sem gerðar hafi verið undanfarin fimm ár á lífsháttum og ástandi sjófugla sem verpa í Vestmannaeyjum.

Margvíslegar rannsóknir sem tengjast sjófuglum í Vestmannaeyjum hafa farið fram á þessu tímabili, undanförnum fimm árum 2001–2006. Alls verpa um 15 tegundir sjófugla í Vestmannaeyjum og hafa rannsóknir beinst að öllum þessum tegundum í mismiklum mæli þó. Þrátt fyrir það vantar enn mikið upp á að nægjanleg þekking sé fyrir hendi á mikilvægum tegundum á borð við fýl, lunda og aðra svartfugla.

Þá er lítið vitað um þær tegundir sem eru að mestu á ferli í rökkri, þ.e. skrofu- og sæsvölutegundirnar tvær, stormsvölu og sjósvölu, en helstu rannsóknarverkefni á þessu tímabili eru heildarmat á fjölda sjófugla í Vestmannaeyjum sem hófst 2006 og er hluti af heildarmati á fjölda sjófugla í landinu.

Þetta verkefni er unnið í samvinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Þá má nefna rannsóknir á fæðu og viðkomu ritu í Vestmannaeyjum, eftirlit með pysjum og áhrif kanína á lundabyggðir í Heimaey, rannsóknir á fæðu lunda og lundapysja og varpárangur lunda.

Ýmsir aðilar hafa sinnt þessum rannsóknum, svo sem Náttúrustofa Suðurlands í Vestmannaeyjum, Rannsóknasetrið í Vestmannaeyjum, og hluti þessara verkefna hefur verið unninn sem nemendaverkefni nemenda Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri í samvinnu við framantalda aðila.

Hv. þingmaður spyr líka hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir auknum rannsóknum á þessum fuglastofnum og þá hvaða rannsóknum. Því er til að svara að umhverfisráðuneytið hefur þegar komið á samstarfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar um auknar rannsóknir á ástandi og þróun sjófuglastofna umhverfis landið. Þá má nefna að einn af þremur styrkjum sem veittir voru í byrjun síðasta árs úr svokölluðum veiðikortasjóði, sem starfar samkvæmt lögum frá 1994, um villt dýr, var veittur til rannsókna á íslenskum sjófuglastofnum.

Að mínu mati er rétt að bíða þess að sjá hvað fyrstu niðurstöður þeirra rannsókna sem þegar eru hafnar sýna áður en ákveðið verður að ráðast í nýjar rannsóknir. Komi í ljós að efla þurfi þessar rannsóknir, breyta áherslum í þeim eða rannsaka aðra þætti sem snerta stofna sjófugla við landið, er ég tilbúin til að skoða það þegar þar að kemur.

Mér finnst rétt, frú forseti, í þessu samhengi að geta þess jafnframt að hnignun sjófuglastofna við Norður-Atlantshaf hefur ítrekað verið rætt á fundum umhverfisráðherra Norðurlandanna og á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar hefur verið unnið að samræmingu gagnagrunna yfir sjófuglabyggðir í norrænum löndum, því að þetta er áhyggjuefni víðar en hjá okkur á Íslandi. Norrænn hópur vísindamanna, sem unnið hefur frá því í árslok 2002, skilaði ítarlegum tillögum um vöktun sjófuglabyggða og um samræmda skráningu upplýsinga. Í tengslum við Norðurlandaráðsþingið í Kaupmannahöfn síðastliðið haust ályktuðu umhverfisráðherrar um hnignun stofna norrænna sjófugla og þar var heitið frekari samvinnu og aðgerðum til að komast að orsökum fækkunar sjófugla og sjófugladauða.

Að endingu finnst mér rétt, frú forseti, að nefna það hér og minna á það að fyrirhugað er að halda ráðstefnu á vettvangi norræns samstarfs, vettvangi samstarfs Norrænu umhverfisráðherranna, einhvern tímann um mitt þetta ár þar sem vísindamenn munu bera saman bækur sínar um þessi rannsóknarefni.