133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

rannsóknir á sjófuglum.

254. mál
[15:47]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Mér finnst eðlilegt að þessu máli sé hreyft. Það eru ákveðin teikn á lofti varðandi fæðu fyrir sjófugla. Við þurfum að fylgjast vel með og kanna það í náttúrunni. Þetta er vísbending um breytingar í náttúrunni.

Eitt af því sem ég hef tekið eftir, af því að ég hef verið þeirrar gleði aðnjótandi að fara í eggjatöku í Akrafjalli síðustu 37 árin, er að fyrstu árin réð svartbakurinn þar algerlega ríkjum, þ.e. 90% svartbakur og 10% sílamáfur, sem er helmingi minni fugl. En það hefur gersamlega breyst. Nú er hending ef menn sjá stærri fuglinn, þ.e. svartbakinn. Minni fuglinn hefur algerlega tekið yfir þetta varpsvæði og þar að auki hefur varpið minnkað, sérstaklega á síðustu 6–7 árum þannig að það eru einhverjar breytingar í gangi.