133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

aðgangur að háskólum.

146. mál
[18:11]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni varðandi síðasta atriðið. Þessi undanþága er í lögum til að henni sé beitt en þá sparlega og við vitum að t.d. Háskólinn á Akureyri hefur beitt þessari heimild með almennt jákvæðum árangri.

Það er rétt sem kom fram í fyrri ræðu hv. þingmanns. Alls staðar um hinn vestræna heim er mikil aðsókn að háskólanámi. Hún hefur reyndar verið hlutfallslega langmest á Íslandi enda þurftum við að sækja á, við vitum að við þurftum að fjölga háskólanemum. Um leið er hæsta krafan í dag í hinum vestræna heimi gæðakröfur og gæðastaðall. Ég hef verið að fara yfir umsóknir í öðrum löndum, nágrannalöndum sem við viljum bera okkur saman við. Ég get nefnt Svíþjóð, þar eru tveir umsækjendur um hverja eina námsstöðu. Sama í hvaða námsgrein er eru tveir umsækjendur á móti einum sem síðan kemst inn. Við erum líklega það land sem tekur hlutfallslega inn flesta nemendur miðað við umsóknir. Við erum með opnasta háskólakerfið, og það er gott Við ætluðum okkur að greiða aðganginn að háskólanámi, við ætluðum að reyna að færa menntunina, við erum að gera það t.d. á framhaldsskólastigi. Ég bendi hv. þingmanni á framhaldsskóladeildina á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar erum við að reyna að tengja landshluta sem er í erfiðum tengingum við aðra landshluta út frá samgöngum inn í námskerfið með því að tengja hann við framhaldsskólann á norðanverðu Snæfellsnesi.

Það sama erum við að gera við háskólanámið. Ég tel mikilvægt að við eflum aðgengi enn frekar að háskólanámi, ekki með því að stofna formlega háskóla víðs vegar um landið heldur miklu frekar að nýta þá þekkingu sem er fyrir í starfandi háskólum. Ég fagna sérstaklega áherslum nýráðins rektors á Bifröst, að reyna að efla fjarnámið og dreifmenntunina frá skólanum til að teygja anga sína nær fólkinu í landinu sem er víðs vegar dreift um það til þess, frú forseti, að auka aðgengið að háskólanámi þannig að sem flestir geti notið þeirra tækifæra sem skólakerfið býður upp á og um leið notið eigin mannkosta.