133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

nám langveikra ungmenna o.fl.

334. mál
[18:21]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þann áhuga sem hún sýnir þessu máli. Eftir að hafa rætt við kennara sem sjá um menntun á grunnskólastigi á Landspítala – háskólasjúkrahúsi skoðaði ég þær lagagreinar sem eiga að snúa að þeim sem eru langveikir, hafa orðið fyrir slysi og eru langtímum saman í endurhæfingu eða á sjúkrastofnunum.

Okkur var bent á að orðið hefði ákveðið brottfall, sem við höfum orðið vör við. Það átti sérstaklega við hjá þeim sem eru að hefja framhaldsskólanám, hafa ekki fest sig í námi og eru ef til vill það veik að þau geta ekki upp á sitt eindæmi komið á samvinnu á milli viðkomandi skóla eða skipulagt námið. Jafnvel er um það að ræða að þar séu einstaklingar utan af landi sem koma til Reykjavíkur og eru hér vegna langvarandi veikinda. Meðferðin fer oftast fram í höfuðborginni.

Það hefur lent í verkahring grunnskólakennaranna að reyna að veita þeim einhverja þjónustu. Þau töluðu um að koma þyrfti starfinu í betra form og kalla eftir skýrslum frá framhaldsskólunum þannig að þeir uppfylli sitt hlutverk og fylgist með því að einstaklingar, hvort sem er hér á höfuðborgarsvæðinu eða þeir sem koma utan af landi, fái þá menntun sem þeir hafa þegar skráð sig í eða ætla að stunda. Þarna er misbrestur á þjónustunni. Þetta er ekki stór hópur en samt þarf að sinna honum. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra hafi leitt hugann að þessari þörf og treysti því að gerðar verði ákveðnar úrbætur, þótt ekki væri annað en að kalla eftir því að framhaldsskólarnir sinni þeim einstaklingum sem koma af þeirra svæðum.