133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

skólavist erlendra barna.

446. mál
[18:28]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Spurningin frá hv. þingmanni er tvíþætt. Í fyrsta lagi spyr hann:

„Hafa yfirvöld kannað með einhverjum hætti hvort erlendir ríkisborgarar sem komið hafa hingað til dvalar um lengri tíma hyggist setjast hér að með fjölskyldum sínum?“

Það er rétt að taka fram að félagsmálaráðuneytið fer með velferðar- og fjölskyldumálin samkvæmt reglugerð og lögum um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum. En innflytjendaráð er skipað af félagsmálaráðherra. Það hefur það meginverkefni að fjalla um helstu atriði er snerta aðlögun útlendinga að íslensku samfélagi.

Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar fer dóms- og kirkjumálaráðuneytið með málefni útlendinga önnur en atvinnuréttindi. Menntamálaráðuneytið hefur ekki haft frumkvæði að því að kanna sérstaklega kerfisbundið framtíðaráform þeirra einstaklinga af erlendum uppruna sem búsettir eru hér á landi. Ráðuneytinu er heldur ekki kunnugt um að slíkar spurningar séu lagðar fyrir þá Íslendinga sem eiga aðild að hinu Evrópska efnahagssvæði.

Þá er komið að þeirri spurningu sem ég tel sérstaklega snerta menntamálaráðuneytið. Þar spyr hv. þingmaður:

„Hefur verið reynt að kanna hve mörg börn erlendra foreldra munu þurfa skólavist næsta haust? Ef svo er, hve mörg erlend börn telja menntayfirvöld að þurfi skólavist?“

Samkvæmt 1. gr. laga um grunnskóla frá 1995 er sveitarfélögunum skylt að halda skóla fyrir öll börn og unglinga á aldrinum 6 til 16 ára, eftir því sem nánar segir í lögunum. Í þeim segir einnig að öllum börnum og unglingum á framangreindum aldri sé skylt að sækja skóla þótt frá því megi veita undanþágu ef sérstök skilyrði eru fyrir hendi. Almennt hefur verið við að miðað að skólaskylda sé bundin við lögheimilisskráningu í viðkomandi sveitarfélagi. Ætla verður að börn erlendra foreldra á skólaskyldualdri sem búsett eru hér á landi hafi þegar hafið skólagöngu. Innritun í framhaldsskóla fer á hinn bóginn almennt fram á sumrin. Ekki liggur fyrir hve margir einstaklingar með erlent ríkisfang munu leita eftir skólavist í framhaldsskóla næsta haust.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað mjög hér á landi undanfarin ár. Hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúum í heild var 6% hinn 1. desember 2006 samanborið við 4,6% á árinu áður. Rétt er að hafa í huga að nokkur óvissa er um skráningu útlendinga í flutningum til og frá landinu. Þannig getur dregist að einstaklingar sem fá dvalarleyfi séu skráðir í íbúaskrá og að sama skapi geta liðið nokkrir mánuðir þar til einstaklingar sem flytjast af landi brott eru felldir út af íbúaskrá.

Einnig ber að hafa í huga að erlendum ríkisborgurum sem fengið hafa íslenskt ríkisfang hefur fjölgað ört undanfarin ár. Árið 2005 voru þeir 726 samanborið við 161 árið 1991. Mest var fjölgunin 2003–2004 en þá fjölgaði einstaklingum sem öðluðust íslenskt ríkisfang úr 462 í 671.

Fjölgun erlendra ríkisborgara er mjög hröð en athygli vekur — ég vil vekja athygli hv. þingmanns á þessu — að hlutfallslega eru afar fá börn í hópi þeirra sem flytjast hingað til lands. Einungis 2,4% einstaklinga á aldrinum 0–19 ára höfðu erlent ríkisfang hinn 1. desember síðastliðinn samanborið við 2,2% á árinu áður. Þar er fækkun sem skiptist þannig milli skólastiga að fjöldi leikskólabarna var 695 eða 2,8% allra leikskólabarna, fjöldi grunnskólabarna var 969 eða 2,2% allra grunnskólabarna og fjöldi unglinga fram að skólastigi 471 eða 2,6% allra unglinga í framhaldsskólum landsins.

Það er rétt að hafa í huga að börn sem eiga eitt íslenskt foreldri og eitt erlent eru almennt ekki í þessum tölum. Tölur um börn sem tala annað móðurmál en íslensku má síðan finna á vef Hagstofu Íslands.

Það er rétt að taka fram, út af kveikjunni að þessari fyrirspurn hv. þingmanns, að ég tek undir það að börn útlendinga sem koma hingað til lands eiga rétt á að ganga í íslenska skóla. Kerfisbundin vandamál, sem auðvelt er að leysa, eiga ekki að hindra sveitarfélögin í að börnin komist í skóla. Þau eiga ekki að vera nein hindrun. Sveitarfélögin hafa ákveðið svigrúm. Þetta eru í raun þau vandamál sem hafa komið upp. Þau eru tímabundin og vara skamma stund. Fyrst og fremst verðum við að hafa hagsmuni barnanna í huga og hagsmunir barnanna eru að sjálfsögðu að ganga í skóla og mennta sig. Það veitir þeim aukin tækifæri.