133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

samningar um rannsóknafé til háskóla.

493. mál
[18:40]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi sérstaklega þakka hv. fyrirspyrjanda hlý orð í garð þess samnings sem ég gerði við Háskóla Íslands og í rauninni spyrja hann í kjölfarið hvort hann væri að reyna að halda því fram að það væri annarra að uppfylla, hvort ég hefði ekki átt að gera þennan samning. Í fyrsta lagi náttúrlega buðu lögin upp á það. Ég varð að gera þennan samning. Þá spyr ég. Átti ég að hafa hann til þriggja ára, eða fjögurra eða fimm ára, eða bara að sleppa því að gera samninginn?

Það lá alveg ljóst fyrir að við þurftum að gera þennan samning og mjög mikil vinna, undirbúningsvinna hafði átt sér stað til að ná þeim samningi. Við vorum búin að gera og báðum um að framkvæmdar yrðu miklar úttektir á rannsóknar- og gæðastarfi innan Háskólans. Við fengum erlenda aðila til að fara mjög gaumgæfilega yfir öll mál. Það einsetti ég mér strax þegar ég tók við embætti menntamálaráðherra, að fara vel yfir málefni Háskóla Íslands til að geta áttað mig enn betur á hvernig best væri að haga samningum og viðskiptum við Háskóla Íslands.

Síðan rann samningurinn sem var í gildi út núna um áramótin og það var einboðið að gera nýjan samning við Háskóla Íslands. Ég hef undirstrikað að þýðingarmikið er með þeim samningi að ítreka mikilvægi Háskóla Íslands, ekki bara í íslensku háskólasamfélagi, heldur líka út á við. Við viljum stefna að því að eiga hér háskóla í fremstu röð. Ég tel að við höfum háskóla sem hefur alla burði til þess að gera það, ekki eingöngu Háskóla Íslands, heldur erum við að sjá marga aðra góða hluti gerða í öðrum háskólastofnunum á sérsviði þeirra, en gerðar hafa verið miklar kröfur til Háskóla Íslands. Þetta er alhliða skóli. Við gerum miklar kröfur varðandi menningararfinn, íslenskuna sem honum ber að viðhalda og efla. Ég get líka nefnt heilbrigðisvísindi þar sem við erum í fremstu röð o.s.frv.

Það er rétt að núna er í gildi samningur við Háskólann á Akureyri. Hv. fyrirspyrjandi spyr eftirfarandi spurningar:

„Er þess að vænta að Háskólinn á Akureyri fái á næstunni sams konar samning um aukið fé til rannsókna og Háskóli Íslands fékk á dögunum?“

Með sérstökum viðauka við kennslu- og rannsóknarsamning milli ráðuneytisins og Háskólans á Akureyri, sem undirritaður var hinn 6. desember síðastliðinn, er staðfest hækkun framlaga til Háskólans á Akureyri sem ákveðið var í fjárlögum 2007.

Rétt er að draga það fram að framlagið til Háskólans á Akureyri hækkaði um 70 millj. kr. Þá er ég eingöngu að tala um rannsóknirnar, sem miðað var við í frumvarpi til fjárlaga 2007. Hlutfallslega er, ef hægt er að fara í slíka samanburðarfræði, um mun meiri hækkun að ræða til Háskólans á Akureyri en ákveðið var til Háskóla Íslands. Gildir einu hvort saman eru borin fjárlög áranna 2006 og 2007 eða frumvarp til fjárlaga árið 2006, og síðan endanleg útgáfa af fjárlögunum 2007.

Hlutfallslega er hækkunin til Háskólans á Akureyri til rannsókna meiri en til Háskóla Íslands ef við miðum við nemendaígildin. En samkvæmt ákvæðum laga um háskóla gerir menntamálaráðherra, eins og ég gat um áðan, samning um kennslu og rannsóknir við háskólann frá þremur til fimm ára, þ.e. þriggja til fimm ára í senn, sem heimilt er síðan að endurskoða á samningstímanum.

Viðauki við gildandi samning við Háskólann á Akureyri gildir út þetta ár. Við erum þegar búin að sammælast um það, ég og yfirstjórn Háskólans á Akureyri, að viðræður um gerð nýs samnings gætu hafist á næsta hausti og nýr samningur verði að sjálfsögðu undirritaður áður en þetta ár er úti.

Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni og fyrirspyrjanda, Steingrími J. Sigfússyni, að afar mikilvægt er að haldið verði áfram að hlú að Háskólanum á Akureyri. Hann er burðarás í menntamálum okkar fyrir norðan og það hefur algerlega sýnt sig að hann hefur skipt sköpum varðandi atvinnu, menningarlíf og menntalíf á því svæði sem hann er staðsettur. Við munum því halda áfram að efla háskólann. Rétt er að geta þess að frá t.d. árinu 2000, miðað við fjárlagaárið í ár, hefur aukning í nemendaígildum á fjárlögunum verið um 180%, miðað við árið í ár.

Framlög til háskólans frá árinu 2000–2006, miðað við verðlag hvers árs, hefur aukist hjá Háskólanum á Akureyri um tæplega 160%. Við erum því að efla háskólann. Það skiptir okkur miklu máli að það verði gert áfram. Það er mikið fagnaðarefni að okkur hefur tekist sérstaklega að auka við rannsóknarhlutfallið. Það er sérstakt áherslumál sem hefur verið af hálfu yfirstjórnar Háskólans á Akureyri og að sjálfsögðu munum við fara mjög vel yfir þau málefni þegar verður farið í viðræður við háskólann.