133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

samningar um rannsóknafé til háskóla.

493. mál
[18:45]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Ég hefði kannski viljað hafa þau bara einfaldari og styttri. Eitt jú hefði dugað mér, það megi bara ósköp einfaldlega treysta því að Háskólinn á Akureyri fái sams konar samning að breyttu breytanda að sjálfsögðu, auðvitað miðað við stærðarhlutföll og aðstöðu að einhverju leyti. Það sem verður að hafa í huga í sambandi við allan samanburð á tölum fyrir Háskólann á Akureyri er að hann hefur verið í mjög örri uppbyggingu. Hann stóð mun lakar að vígi framan af hvað varðaði fjármagn til rannsókna. Það var í sjálfu sér kannski eðlilegt og ekki endilega sanngjarnt að bera ungan eða nýjan háskóla í uppbyggingu saman við rótgróna stofnun eins og Háskóla Ísland. En Háskólanum á Akureyri er ákaflega mikilvægt að fá sams konar meðhöndlun og styrkingu hvað varðar rannsóknaþáttinn ekki síður en fjárveitingar til kennslu og annarrar starfsemi vegna þess að sjálfsögðu að metnaður manna þar stendur til að verða alvöruakademía, fullgild akademía á þeim sviðum sem Háskólinn á Akureyri markar sér bás.

Ég endurtek að það er gífurlega mikilvægt að háskólinn hafi fast land undir fótum í þessum efnum þannig að hann geti laðað að sér hæft starfsfólk og tapi ekki í samkeppninni. Mér segja háskólamenn nú þegar, að það beri á því að eftir hinn nýja samning við Háskóla Íslands hafi skapast spenningur og eftirvænting um það sem þar sé fram undan og frekar tilhneiging til að menn séu að snúa sér aftur þangað, jafnvel hæfir menn sem aðrir háskólar og Háskólinn á Akureyri þar á meðal, höfðu verið að reyna að laða til sín.

Varðandi samninginn við Háskóla Íslands, að sjálfsögðu átti hæstv. ráðherra að gera samning eins og lög gera ráð fyrir. Ég var fremur að benda á að það væri orðið dálítið kvöldsett á þessu kjörtímabili í embættisferli ráðherrans þegar samningurinn var loksins gerður (Menntmrh.: Ég man ekki …) og Háskóli Íslands hefur kvartað undan því að fá ekki betri meðhöndlun og betri fyrirgreiðslu að undanförnu og þetta breytir auðvitað ekki því eðli máls að það eru fjárveitingar á fjárlögum komandi ára sem ráða síðan hinni efnislegu niðurstöðu.