133. löggjafarþing — 68. fundur,  7. feb. 2007.

fagháskólar.

549. mál
[18:58]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn um fagháskólastigið eins og það er stundum kallað. Málefni háskólastigsins á Íslandi hafa verið mikið í deiglunni undanfarin ár eins og menn vita og þekkja. Háskólastúdentum hefur sem betur fer fjölgað mjög mikið, bæði í grunnnámi og framhaldsnámi. Til dæmis liggur núna fyrir Alþingi frumvarp um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskólans og ég tel það einmitt bera gróskunni í háskólasamfélaginu vitni.

Í fyrra var sett ný og framsækin rammalöggjöf um háskólastigið. Á grundvelli þeirra laga hafa verið settar reglur um viðurkenningarferla námsframboða við háskólana en þær fela m.a. í sér að einstakir háskólar þurfa að sækja um viðurkenningu á námskrám sínum á einhverju þeirra sex fræðasviða sem skilgreind eru í fyrrnefndum reglum. En óháðar nefndir sem verða að mestu eða öllu leyti skipaðar erlendum sérfræðingum munu síðan meta umsóknirnar. Meginmarkmið þessara nýmæla í háskólalöggjöfinni er að tryggja gæði í háskólamenntun á Íslandi. Það er verið að auka gæðakröfurnar til háskólanna.

Eins og kunnugt er tökum við Íslendingar fullan þátt í svokölluðu Bologna-ferli um samræmingu á skipulagi háskólanáms í Evrópu sem er m.a. ætlað að auðvelda flæði háskólastúdenta milli háskóla og landa í Evrópu. Fyrir rúmu ári síðan skipaði ég nefnd til að kanna hvernig mætti stuðla að aukinni aðsókn að starfsnámi eins og hv. þingmaður kom inn á, einfalda skipulag námsins, sem ég álít vera mikilvægt, og tryggja fjölbreytt framboð, sveigjanleika og samfellu í skólastarfi og bæta tengsl starfsmanna á framhaldsskólastigi við grunnskólastigið annars vegar og háskólastigið hins vegar. Nefndin var skipuð fulltrúum frá framhaldsskólunum og samtökum kennara, atvinnulífs og launþega. Nefndin skilaði mér tillögum sl. sumar sem við höfum rætt nokkrum sinnum í þessum sal og meðal tillagna nefndarinnar var jafngilding bóknáms og starfsnáms til stúdentsprófs og að skilgreint verði svokallað fagháskólastig, eins og það er kallað í skýrslunni.

Rök nefndarinnar fyrir fagháskólastiginu voru m.a. þau að þrátt fyrir mjög vaxandi ásókn í háskólanám væri skortur á námsframboði í starfstengdu námi að loknu starfsnámi á framhaldsskólastigi eða að loknu stúdentsprófi. Vísir að slíku námi var þó fyrir hendi, t.d. í námi heilbrigðisstétta, í leiðsögunámi, námi í margmiðlun og sjávarútvegsnámi. Ég held að við verðum að taka einmitt þessar ábendingar nefndarinnar mjög til athugunar.

Nokkuð er um að íslenskir nemendur sæki framhaldsnám í verk- og tæknigreinum erlendis enda hefur í nágrannalöndunum þróast fjöldinn allur af námsbrautum í starfstengdum greinum fyrir þá sem lokið hafa starfsnámi í framhaldsskóla. Einnig er rétt að nefna í þessu sambandi meistaranám iðnaðarmanna sem stundað er að loknu sveinsprófi. Það nám er sannarlega í efri mörkum þess að teljast framhaldsskólanám.

Fyrir rétt rúmu ári undirritaði ég samkomulag við formann Kennarasambands Íslands um að vinna sameiginlega að betra skólakerfi með heildarendurskoðun á námi og breyttri námsskipan skólastiganna. Fjölmargir starfshópar og nefndir hafa unnið að því verkefni, m.a. er nú unnið samtímis að endurskoðun laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Starf þessara hópa og nefnda er nú á lokastigi en of snemmt er að segja til um niðurstöður þess, þar á meðal hvað varðar málefni svokallaðs fagháskólastigs. Ég tek þó heils hugar undir að mikilvægt er að bjóða erlendis upp á fjölbreyttari leiðir til náms á sviði verk- og tæknimennta að loknu hefðbundnu starfsnámi. Það er afar mikilvægt að við aukum þau tækifæri.

Ljóst er hins vegar, frú forseti, að nýsett rammalöggjöf um háskóla setur mjög skýrar kröfur um námsgráður á háskólastigi og hæfniskröfur til kennara á háskólastigi. Það eru mjög stífar kröfur hvað þetta atriði varðar. Sé vilji til þess að heimila framhaldsskólum að bjóða upp á háskólanám þá er óhjákvæmilegt að hafa þetta í huga og velta fyrir sér hvort viðbótarnám eftir lok framhaldsskóla eigi að flokka sem háskólanám og þá gildir nýja rammalöggjöfin með þessar miklu kröfur eða að það verði túlkað sem viðbótarnám eftir framhaldsskóla sem veitir síðan tiltekin réttindi. Slíkt nám kallar mögulega á sérstaka löggjöf eða breytingu á framhaldsskólalögum en líkt og ég gat um áðan er unnið að endurskoðun þeirra laga og það má velta því fyrir sér hvort sú nefnd eigi að líta sérstaklega til þessa atriðis sem tengist fagháskólastiginu, þ.e. hvort framhaldsskólanefndin eigi sérstaklega að fara yfir það.

Ég tel mikilvægt að ef skólar ætla að kalla sig háskóla þá verði gerðar til þeirra sömu kröfur og við gerum til háskóla almennt í samfélaginu því það skiptir miklu að við höldum okkur við þær alþjóðlegu skuldbindingar eða alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til háskólasamfélagsins og þess vegna er afar brýnt fyrir okkur að meta það hvernig það þjóni þeim tilgangi að efla starfsnám eftir að framhaldsskólanámi lýkur, hvernig við förum best að því að gera það með því að tengja það háskólanum eða veita framhaldsskólanum enn betri tækifæri til að sinna því.