133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

málefni Byrgisins.

[15:17]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt um ábyrgð í tengslum við svokölluð Byrgismál. Ég vil í fyrsta lagi segja að mér líkar afskaplega illa að menn séu að nota sér eymd fólks sér til framdráttar á hinu pólitíska sviði eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Mér finnst það lítilmannlegt af hv. þingmanni og honum til lítils sóma.

Hver ber ábyrgð? Hver ber svo ábyrgðina? Það er auðvitað fyrst og fremst fyrrverandi forstöðumaður Byrgisins sem ber ábyrgð. Hann ber þá ábyrgð að hafa misfarið með fé, það eru a.m.k. sterkar grunsemdir um það, og sömuleiðis að hafa misfarið með fólk sem er miklu verra. Þetta er sami forstöðumaðurinn og hefur haft þingmenn stjórnarandstöðunnar hér í vasanum og teymt þá eins og hunda í bandi með svipuna á lofti til þess að láta þá reka erindi sín í þingsölum.

Hver er ábyrgð hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar sem gengið hafa erinda þessa manns í þingsölum? (SJS: Hvaða djöfulsins …?) Hvernig ætla þeir að axla ábyrgð? (Gripið fram í.) Hvernig ætlar hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon að axla ábyrgð með öðrum hætti en að blóta hér í þingsölum sem hann er þekktur fyrir? (SJS: Hvernig ætlar Framsóknarflokkurinn að axla ábyrgð?) (Gripið fram í.) Hvað hafa hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar flutt margar ræður, flutt margar tillögur um auknar fjárveitingar til Byrgisins? (Gripið fram í.) Ég er hér með bunka af ræðum og bunka af tillögum frá hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar þar sem þeir leggja til að enn meira fé verði dælt til Byrgisins. Væri nú ekki ráð fyrir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að líta í eigin barm og spyrja sjálfa sig: Hvernig get ég axlað ábyrgð á þessum mistökum mínum hér á þinginu?