133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

málefni Byrgisins.

[15:22]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta mál snýst í sjálfu sér um tvennt, annars vegar hvernig við grípum til aðgerða vegna þeirrar stöðu sem nú er uppi gagnvart því fólki sem á um sárt að binda eftir það sem upp hefur komið hjá Byrginu og það sem þar hefur gerst, og hins vegar hvernig stjórnvöld hafa haldið á þessu máli undanfarin ár. Þetta eru þau atriði sem þarf að takast á við og ég fagna því að félagsmálanefnd og fleiri hafa komist að þeirri niðurstöðu að hvetja til að gripið verði strax til bráðaaðgerða gagnvart þessu fólki. Það er ákaflega mikilvægt í þessari umræðu.

Hins vegar hafa menn horft til baka og spurt: Hvernig gat þetta allt saman átt sér stað án þess að stjórnvöld tækju eftir eða nokkurt eftirlit ætti sér stað? Heilbrigðisráðherra hefur skilað skýrslu til þingsins um að þarna fari fram afeitrun. Hér er um það að ræða að félagsmálaráðherra hefur haft eftirlit með fjármagni sem var veitt til þessa og í þriðja lagi er hér um það að ræða að undirstofnanir dómsmálaráðuneytisins fólu Byrginu að vista fanga. Hér er um það að ræða að Byrgið varð nokkurs konar dvalarheimili fyrir heimilislaust fólk, sjúkrahús að einhverju leyti og fangelsi að einhverju leyti þannig að hér er um stórmál að ræða og hvernig á því hefur verið haldið.

Spurningin er: Hvernig stóð á því að eftirlitið var í molum? Hver ber ábyrgð á því? Það er sú spurning sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson reisti hér eðlilega. Ég vil greina frá því og hef gert það áður reyndar að það kom fram í félagsmálanefnd að starfsmenn ráðuneytisins vildu upplýsa þingið um þessa stöðu en það var ekki pólitískur vilji til að upplýsa um það að fjárhagsstaða Byrgisins væri í molum. Þetta eru staðreyndir (Forseti hringir.) sem hafa komið fram í félagsmálanefnd og (Forseti hringir.) það er mikilvægt að þetta liggi fyrir þegar stjórnarandstaðan er sökuð um að hún beri ábyrgð (Forseti hringir.) á þessu tiltekna máli. Þetta er kjarni málsins, virðulegur forseti.