133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

málefni Byrgisins.

[15:25]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þegar maður er búinn að hlusta á þessar ræður hér er maður afskaplega feginn að hér eru ráðherrar í ríkisstjórn sem nálgast erfið mál eins og þessi af skynsemi og yfirvegun.

Það koma upp mál, hvort sem er á vettvangi þingsins eða sveitarstjórna, sem eru mjög erfið. Í þessu tilfelli eru mörg fórnarlömb sem urðu mjög illa úti. Þá hafa allir kjörnir fulltrúar val. Þeir geta ákveðið að reyna að gera sér pólitískt mat úr hlutunum eða þeir geta gert hitt, sem ég tel vera skynsamlegra allra hluta vegna, að nálgast svona viðkvæm mál með ákveðinni virðingu og bera virðingu fyrir þessu fólki og þessum fórnarlömbum.

Sem betur fer höfum við hér forustumenn og ráðherra sem hafa gert það. Það er vel. Ég vona að sú umræða sem hér fer fram í framhaldinu, hvort sem það er í þessari umræðu eða nánustu framtíð, í málum sem eru jafnviðkvæm og raun ber vitni taki fleiri sér þessa forustumenn þjóðarinnar til fyrirmyndar.

Frjáls félagasamtök hafa unnið stórkostlegt starf í meðferðarmálum. Við getum nefnt SÁÁ, Vímulausa æsku og ýmis önnur samtök. Við höfum treyst þeim vegna þess að þau eru traustsins verð. Hér er ákveðinn harmleikur á ferðinni og ég held, virðulegi forseti, að hv. þingmenn ættu að hafa það í huga þegar þeir ræða þessi mál í þessum sal.