133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[15:39]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég tel að niðurstöður 4. skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna marki ákveðin tímamót í loftslagsumræðunni á þann hátt að aldrei hafa vísindamenn talað jafnafdráttarlaust um að loftslagsbreytingar eigi sér stað og að athafnir mannsins séu þar helsta orsökin. Niðurstöður þessarar skýrslu setja aukinn þrýsting á ríki heims að herða aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Hlýnun andrúmsloftsins er hnattrænt vandamál og það kallar á sameiginlegt átak ríkja heims.

Hvað Ísland varðar erum við virk í alþjóðlegri baráttu gegn loftslagsbreytingum. Við erum aðilar að Kyoto-bókuninni og við munum standa við skuldbindingar okkar þar. Í gildi er stefnumörkun innan lands frá 2002 um aðgerðir og við höfum unnið eftir henni og framkvæmt öll helstu ákvæði þeirrar stefnumörkunar. Þar hefur margt gott verið gert en við getum gert betur og við eigum að gera betur.

Mönnum hefur orðið tíðrætt um stóriðju á Íslandi í sambandi við loftslagsmálin og hv. þingmaður, málshefjandi þessarar umræðu, spyr hvort endurmeta eigi áform um stóriðju í ljósi niðurstöðu skýrslunnar. Stóriðja á Íslandi er umdeilt mál, ekki síst vegna náttúruverndar, og gæta þarf að áhrifum hennar bæði á náttúru og samfélag. Hins vegar er ekkert í skýrslunni sem kallar sérstaklega á breytingar hvað það varðar eins og ég mun koma að.

Við höfum sérstakar heimildir í Kyoto-bókuninni fyrir stóriðju á grundvelli þess að hún nýtir endurnýjanlegar orkulindir og dregur þannig úr losun gróðurhúsalofttegunda hnattrænt. Spár benda til þess að við verðum innan þeirra marka sem Íslandi eru sett en ég hef engu að síður kynnt í ríkisstjórn og geri ráð fyrir að mæla fyrir á Alþingi á næstu dögum frumvarpi sem miðar að því að tryggja að losun frá hugsanlegum nýjum stóriðjuverkefnum verði ekki til þess að Ísland fari fram yfir heimildir sínar.

Í spurningu hv. þingmanns felst að stóriðja á Íslandi sé hluti af loftslagsvanda heimsins. Hér þurfa menn að hugsa skýrt og forðast að blanda saman ólíkum hlutum. Stóriðja hefur áhrif á náttúru landsins, bæði iðjuver og virkjanir, og henni fylgir mengun af völdum svifryks og annarra efna. Þegar hins vegar kemur að loftslagsmálum er það svo að losun gróðurhúsalofttegunda frá álframleiðslu er nær hvergi minni en hér á landi. Þetta er hv. málshefjanda, frú forseti, jafnkunnugt um og mér. Losun á framleitt tonn af áli er hvergi lægra vegna þess að notaðir eru endurnýjanlegir orkugjafar við raforkuna og vegna þess að við setjum mjög strangar kröfur á losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnferlum. Þetta er einföld staðreynd. Það er viðurkennt af öðrum þjóðum að nýting endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi er jákvæð út frá loftslagsmálum, hinum hnattræna vanda, og það er þess vegna sem við fengum sérstakar heimildir í Kyoto-bókuninni varðandi losun frá stóriðju sem nýtir endurnýjanlegar orkulindir. Hitt er svo annað mál hvað við viljum ganga langt til að nýta okkur vatnsafl og jarðvarma á kostnað náttúruverndar.

Á Alþingi verður á næstu dögum rætt frumvarp sem fjallar um vernd og nýtingu orkuauðlinda Íslands og er byggt á vinnu nefndar sem í áttu sæti fulltrúar allra þingflokka. Þar er farvegur sáttar á milli sjónarmiða, nýtingar og verndunar. Það er heldur ekki sjálfsagt að sú orka sem við ætlum að nýta á annað borð fari öll til álframleiðslu, við hljótum að vilja nota hana til fjölbreyttari nota, m.a. við framleiðslu rafmagns eða vetnis á bíla og skipaflota landsmanna í framtíðinni. Ef eingöngu væri litið til hins hnattræna loftslagsvanda er það hins vegar svo að nýting okkar endurnýjanlegu orkulinda, hvort heldur hún er til áliðnaðar eða annars, er ekki hluti af vandanum heldur hluti af lausninni. Þetta er staðreynd hvort sem menn eru með eða á móti stóriðju og virkjunum af öðrum ástæðum.

Niðurstaða skýrslunnar hefur þau áhrif á afstöðu íslenskra stjórnvalda í alþjóðlegum samningaviðræðum að hún styrkir okkur í þeirri trú að hnattrænt átak í minnkun losunar sé eitt brýnasta hagsmunamál mannkyns. Ég legg mikla áherslu á hnattræna lausn því að án hennar verkefnið afar torsótt. Að henni þurfa Bandaríkin að koma og að henni þurfa stóru þróunarríkin eins og Kína og Indland einnig að koma, þar sem losunin er mest í heiminum, þótt iðnvæddu ríkin eigi áfram að vera í fararbroddi. Það er nefnilega svo, frú forseti, að ef eingöngu eru settar strangar kröfur á lítinn hóp ríkja er hætt við að starfsemin flytji sig einfaldlega burt þaðan til staða þar sem engar kröfur eru gerðar og þá er hinn hnattræni vandi sá sami eða jafnvel meiri.