133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[15:53]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er rétt að vekja athygli á þeim meginniðurstöðum sem fram koma í loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna. Í fyrsta lagi er talið líklegast að hitastig muni hækka um 1,8–4 gráður til loka aldarinnar og að sjávarborð hækki um 28–43 sentímetra.

Það sem skiptir okkur Íslendinga mestu máli varðandi loftslagsbreytingar eru hugsanlegar breytingar á hafstraumum. Niðurstaða sérfræðinganefndar Sameinuðu þjóðanna er sú að það sé líklegt að það dragi úr styrk golfstraumsins en það er hins vegar sem betur fer ólíklegt að hann stöðvist. Það má því draga þá ályktun af skýrslunni að það sé líklegast að það hlýni nokkuð á Íslandi á þessari öld vegna loftslagsbreytinga.

Við Íslendingar höfum nokkra sérstöðu eins og fram hefur komið, m.a. eru 99% af allri rafmagnsframleiðslu á Íslandi til komin vegna vatnsorku og jarðvarma. Það eru enn fremur um 70% af heildarorkuframleiðslu okkar Íslendinga.

Ég vil geta þess að samkvæmt Kyoto-bókuninni var okkur heimilt að losa 10% meira á fyrsta losunartímabilinu 2008–2012 en var árið 1990. Því til viðbótar höfum við samkvæmt 14. samþykkt 7. aðildarríkjaþings rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar heimild til þess að losa allt að 1,6 milljón tonna, sem er um 60% aukning frá 1990 til viðbótar við þau 10% sem við fengum með Kyoto-bókuninni. Ég vek hins vegar athygli á því að þetta gildir eingöngu fyrir fyrsta losunartímabilið, þess vegna þurfa menn að fara að huga að því hvað gerist að því loknu.