133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

niðurstöður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna.

[16:02]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau valda vonbrigðum en koma vissulega ekki á óvart. Það hefur áður legið fyrir að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir eru ónæmir fyrir þeim alvarlegu niðurstöðum sem þarna eru á ferðinni og ekkert bendir til að til standi að slá á stóriðjustefnuna, ekkert. Þvert á móti er gefið í skyn að losun muni sprengja undanþágumörkin og verða miklu meiri en þeim samrýmist í lok tímabilsins árið 2012.

Spurningin er ekki bara að þetta tímabil, 2008–2012, 1,6 milljónir tonna á ári, samkvæmt undanþágunni, samtals 8 milljónir tonna, að það haldi. Spurningin er: Hvernig verður staðan undir lok tímabilsins og hvað með framhaldið? Viðræður um framhaldið eiga að ráðast á tímabilinu frá og með deginum í dag, árið 2007 og vera lokið 2009, þannig að þriggja ára aðlögunartími gefist að því sem á að taka við frá og með 2012. Hvert á að verða erindi Íslands inn í þær viðræður ef öll sú stóriðja fer hér í gang á næstu árum sem nú er verið að undirbúa? Þá verður undanþágan kolsprungin og Ísland í engum færum til að halda sig innan þeirra marka.

Það að afgreiða málin á þann hátt eins og hæstv. ráðherra og ríkisstjórn gerir, að ríkisstjórnin ætli að sjá um að þetta sé í lagi og ef fyrirtækin auki losun umfram það sé það á þeirra ábyrgð. Gengur það upp? Er hér ekki um þjóðréttarlega skuldbindingu að ræða? Er hægt að vísa ábyrgðinni af því hvar Ísland í heild sinni stendur í þessu samhengi einungis yfir á fyrirtæki, yfir á einkaaðila? Er þetta ekki þjóðréttarskuldbinding sem hér á við? Ég hefði haldið það.

Varðandi hið almenna ákvæði telur ráðherra að við stöndum þar vel að vígi, séum virkir þátttakendur í Kyoto. En hvað með losunina miðað við 1990, og þó hún megi aukast um 10%, ef öll þau flúorkolefni sem bætast við í nýrri stóriðju og ekki flokkast undir undanþáguna heldur undir almennu ákvæðin, koma til sögunnar? Verður það þá ekki sprungið líka?