133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

staðbundnir fjölmiðlar.

17. mál
[16:32]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er um að ræða mikilvægt mál sem ég er flutningsmaður að og vil leggja áherslu á, ásamt því góða fólki sem flytur það með mér. Það er umhugsunarefni að það eru aðallega þingmenn af landsbyggðinni sem flytja þetta frumvarp. En staðbundnir fjölmiðlar eru einnig hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil t.d. nefna blöð eins og Vesturbæjarblaðið og Breiðholtsblaðið, sem skipta miklu máli fyrir viðkomandi hverfi.

Einnig má nefna útvarpsstöðvar, svo sem Útvarp Sögu sem næst ekki um allt land. Ég vil líka nefna útvarpsstöð sem ég hlusta oft á og þykir vænt um sem hefur átt erfitt uppdráttar — ég vona að það rætist úr hvað það rekstrarumhverfi varðar — en það er Útvarp Kántrýbær sem er mjög mikilvægt útvarp. Ég verð að segja að það er verið að leggja pening í að styrkja hina og þessa starfsemi, hin og þessi söfn. Mér finnst að menn ættu ekki síður að líta til staðbundins útvarps sem Útvarp Kántrýbær er.

Nú hefur Ríkisútvarpið yfir miklu dreifikerfi að ráða. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort þessi fjölmiðlaflóra, þessi lággróður, hvort Ríkisútvarpið ætti ekki einmitt að varpa þessu út víðar. Ég vil t.d. nefna Útvarp Sögu. Þar fer fram mikil þjóðfélagsumræða sem virðist að einhverju leyti fara í taugarnar á sumum. Þá vil ég nefna hæstv. dómsmálaráðherra sem getur ekki setið á sér og skrifar um þessa útvarpsstöð með mjög neikvæðum hætti. Það er eitt af því sem við þyrftum að ræða hér í þinginu, hvernig hæstv. dómsmálaráðherra skrifar um þessa útvarpsstöð. En það er sérstakt, einmitt með þau skrif hæstv. dómsmálaráðherra, að hann hefur ekki hlustað á útvarpsstöðina sjálfur. Hann hefur það eftir einhverjum mönnum sem hann hefur talað við, að þar fari eitthvað fram sem eigi helst ekki að berast með öldum ljósvakans.

En ég er einmitt á því að sú umræða sem t.d. fer fram á Útvarpi Sögu mætti heyrast víðar. Það væri þá ekki endilega hlutverk ríkisins að vera með eina eða tvær útvarpsrásir heldur einnig að dreifa efni frá öðrum aðilum sem eru í rekstri. Ég vil t.d. nefna Kántrýbæ og ágæta stöð eins og Omega. Hvers vegna ekki að dreifa þeim á öldum ljósvakans þannig að fleiri gætu notið þeirra útsendinga en akkúrat það dreifingarsvæði sem stöðvarnar ná til?

Mér finnst að það eigi að horfa á þetta mikilvæga mál í víðu samhengi, það er að verða mikil breyting. Við sjáum það t.d. að fjölmiðill sem er rekinn á netinu nær orðið um allt land. Frá því sjónarhorni skoðast hann ekki sem staðbundinn þó svo honum sé kannski ætlað að fjalla að megninu til um atburði á ákveðnu svæði. Má þar t.d. nefna skagafjordur.com sem fjallar um atburði í Skagafirði eða fólk sem tengist firðinum með einhverjum hætti. Fleiri fjölmiðla má nefna sem eru kannski staðbundnir, eins og Skarpur, en ná út um allan heim.

Það er vert að fara yfir þessi mál og því finnst mér að þessi ágæta þingsályktunartillaga, sem hv. þm. Dagný Jónsdóttir er 1. flutningsmaður að, eigi svo sannarlega að fá brautargengi hér á hinu háa Alþingi.