133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

staðbundnir fjölmiðlar.

17. mál
[16:43]
Hlusta

Flm. (Dagný Jónsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir innlegg hans í umræðuna. Ég get tekið undir hugleiðingar hans. Virðulegur þingmaður kom inn á það að hann deili með okkur flutningsmönnum áhyggjum af stöðu hinna staðbundnu fjölmiðla. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður kom inn á hér að það á við um allt landið. Það á líka við hér um höfuðborgarsvæðið.

Hugsunin á bak við þetta mál er fyrst og fremst sú að þessum fjölmiðlum hefur fækkað mjög mikið. Og ég viðurkenni það nú reyndar að ég er þá ekki síður að horfa til landsbyggðarinnar. Þar á meðal hafa menn borið sig mjög aumlega undan hærri póstburðargjöldum og öllu því sem hv. þingmaður kom inn á hér áðan. Það íþyngir líka félagasamtökum.

En ég skal viðurkenna að ég er ekki með beinar tillögur enda er í þessari þingsályktunartillögu kveðið á um að þessi nefnd skuli þá koma með tillögur um beinar eða óbeinar aðgerðir. Það liggur beinast við að þetta séu slíkir styrkir varðandi þá útbreiðslu þessara blaða. Margir miðlar hafa brugðist við með því að setja starfsemi sína á netið. En það er ekki það sama. Ég mundi ekki vilja horfa upp á að öflugir fjölmiðlar, eins og hér var getið um, Skarpur á Húsavík eða Sunnlenska o.fl., mundu hætta að prenta sín eintök.

Þetta atriði stendur upp úr að mínu mati. En kannski getur líka verið að það komi einhverjar fleiri tillögur frá þessari ágætu nefnd sem ég bind nú miklar vonir við að verði stofnuð og komi með góðar úrbætur.