133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[16:46]
Hlusta

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga, um breytingu á lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum. Við leggjum hér til, hópur samfylkingarþingmanna, nokkrar mjög mikilvægar breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna, þeim merka sjóði sem hefur það hlutverk að tryggja jöfn tækifæri til menntunar á háskólastigi. Sjóðurinn hefur staðið sig frábærlega vel sem slíkur í áranna rás og hefur alltaf verið staðinn um hann pólitískur vörður þar sem hann hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Það þekkja allir þeir sem hafa farið í háskólanám, og reyndar iðnnám líka eftir að grunndeild lýkur, hve það er mikilvægt pólitískt jöfnunartæki að búa að slíkum lánasjóði sem tryggir öllum aðgang að námi, burtséð frá því hvernig efnaleg staða er hverju sinni.

Þær breytingar sem við leggjum hér til helstar eru að ef námsmaður lýkur lokaprófum á tilskildum tíma, samkvæmt reglum viðkomandi skóla, breytist 30% af upphæð námslánsins í námsstyrk. Styrkurinn verði skattfrjáls og óháður tekjum viðkomandi námsmanns. Þannig að ljúki námsmaður námi sínu á tilskildum tíma, ljúki þriggja ára námi á ekki lengri tíma en t.d. þremur og hálfu ári o.s.frv., þá breytast 30% af teknu láni í námsstyrk. Þetta ýtir mjög á eftir því að fólk ljúki námi á réttum tíma og hefur ýmis jákvæð hliðaráhrif á starfsemi sjóðsins o.s.frv. Ljúki námsmaður ekki lokaprófum á tilskildum tíma, samkvæmt reglum viðkomandi skóla, og geti hann ekki framvísað vottorði um lögmæt forföll, verður ekki um styrkveitingu að ræða. Stjórn sjóðsins sker í vafatilvikum úr um hvort námsmaður telst hafa lokið lokaprófum á tilskildum tíma.

Þetta er sú stærsta einstaka breyting sem við leggjum til í frumvarpi til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Væri mikil bót ef þetta næði fram að ganga. Sérstaklega þar sem oft er um verulegar lántökur að ræða. Háskólaflóran hefur tekið miklum breytingum. Nokkur þúsund Íslendingar fara á hverju ári í svokallaða einkarekna háskóla eða sjálfstætt starfandi háskóla, eins og Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst o.s.frv. Þessir nemendur taka, fyrir utan framfærslulánin, skólagjaldalán þannig að lántaka þeirra er margfalt hærri en þeirra sem taka eingöngu lán fyrir framfærslunni í opinberu skólunum. Þetta er því mikið réttlætismál fyrir þennan hóp, sem er að leita sér frekari menntunar, fer svo út í samfélagið að nýta menntun sína, koma sér upp fjölskyldu og þaki yfir höfuðið og allt það. Við þekkjum það öll að þetta er sá hópur sem lendir oft í tímabundnum fjárhagserfiðleikum. Hefur kannski ágætistekjur en gífurleg útgjöld. Ég held að þessi breyting, að 30% af lánunum yrðu að styrk, mundi skipta mjög miklu máli í þessu tilfelli. Þetta er hér í kafla laganna um námslán og námsstyrki.

Þá leggjum við til nokkrar aðrar breytingar sem Samfylkingin, og ýmsir þingmenn í okkar röðum, hefur lengi barist fyrir og lýtur að hinni svokölluðu ábyrgðarmannakröfu.

Við leggjum það til í breytingum í 2. gr.:

„Námsmaður, sem fær lán úr sjóðnum, skal undirrita skuldabréf við lántöku og ber hann ábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu þess. Ekki skal krafist ábyrgðarmanns á námslán.“

Þetta er grundvallarbreyting sem við viljum kalla fram og tryggja með lagabreytingu. Þess eru dæmi að fólk hafi ekki getað tekið námslán af því að það hefur ekki getað framvísað ábyrgðarmanni. Ábyrgðarmannahefðin, bæði í bönkum og lánastofnunum, á að sjálfsögðu að heyra til liðinni tíð. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur ítrekað flutt lagafrumvörp um að leggja af ábyrgðarmannakerfið, ef svo má kalla það.

Hvað varðar starfsemi námslánanna alveg sérstaklega þá er það að mínu mati fráleit krafa að krefjast ábyrgðarmanns á námslánum. Það gefur augaleið að sá hópur fólks sem leggur það á sig að stunda háskólanám í mörg ár kappkostar að greiða upp lánin sín þó að ekki sé ábyrgðarmaður á þeim — ábyrgðarmaður sem er þá einhvers konar svipa á að fólk borgi upp lánin þannig að þau lendi ekki á ábekingi síðar. Það eru örfá jaðartilvik sem kæmu upp, að fólk gæti ekki greitt lánið. Það má líka að sjálfsögðu leita annarra leiða, sem sagt í sjálfsskuldarábyrgð viðkomandi, þ.e. að hann beri ábyrgð á endurgreiðslu lánsins ásamt vöxtum og verðtryggingu. Að mínu mati þarf ekki aðrar ábyrgðir og það er mikið réttlætismál að leggja ábyrgðarmannakröfu á námslán af.

Þetta er hin meginbreytingin sem við leggjum til. Það er sem sagt að 30% af teknu láni breytist í námsstyrk að námslokum, að því tilskildu að fyrir fram skilgreindum markmiðum hafi verið náð, og síðan að ábyrgðarmannakrafan á námslán verði afnumin. Stjórn sjóðsins sér svo um það mál. En við leggjum líka til aðra breytingu, sem er kærkomin og þörf, en það er að námslán verði greidd fyrir fram fyrir hvern mánuð. Ekki eftir á eins og þekkist núna. Fyrirframgreiðsla væri til mikils hagræðis fyrir námsmanninn og við leggjum til að við 4. mgr. bætist nýr liður svohljóðandi:

„Eðlileg námsframvinda í námsgrein miðast við reglur í þeim skóla þar sem nám er stundað.“

Síðan kemur setningin við 5.–7. mgr., um að ekki skuli krafist ábyrgðarmanns.

Þá leggjum við að lokum til í 4. gr. eftirfarandi breytingar á 9. gr. laganna:

„a. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Hverri endurgreiðslu skal skipt í höfuðstól og verðbætur.

b. 2. mgr. fellur brott.“

Með frumvarpinu leggjum við til grundvallarbreytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Við leggjum til að námslán verði ávallt greidd fyrir fram fyrir hvern mánuð og að krafan um ábyrgðarmenn á lánum verði felld brott úr lögunum enda samræmist hún ekki ákvæðum laganna um jafnrétti til náms. Ábyrgðarmannakrafan brýtur þvert gegn því grundvallarmarkmiði sjóðsins að tryggja jafnrétti til náms á Íslandi, óháð efnahag og efnalegri stöðu námsmanna. Vitað er um mörg dæmi þess að ungt fólk hafi orðið að hverfa frá fyrirætlunum um nám vegna þess að það hefur ekki getað framvísað kröfum um ábyrgðarmann sem sjóðurinn tekur gildan. Hver námsmaður á að okkar mati sjálfur að vera ábyrgur fyrir endurgreiðslum námslána sinna og á að undirrita skuldabréf þess efnis. Stjórn sjóðsins ákveður síðan hvaða skilyrðum lántakandi þarf að fullnægja.

Eins og áður sagði eru aðrar breytingar þær helstar að þegar námsmaður hefur lokið lokaprófum á tilskildum tíma eða framvísað vottorði um lögmætar tafir á námi, breytast 30% af upphæðinni sem hann hefur tekið að láni í óendurkræfan styrk. Styrkurinn yrði hvorki tekjutengdur né skattlagður.

Þessar breytingar taka mið af því sem best hefur reynst öðrum Norðurlandaþjóðum, þjóðum sem standa okkur mun framar í félagslegu réttlæti á flestum sviðum. Breytingarnar taka t.d. mið af reglum í Svíþjóð þar sem 34,5% af upphæð sem námsmaður fær til ráðstöfunar á námstíma verða hreinn styrkur sé miðað við fullt nám, eða um það bil 7.200 sænskar krónur.

Annars staðar á Norðurlöndunum eru námsstyrkir ekki bundnir við námslok. En hér leggjum við það til sem skilyrði fyrir styrkveitingu. Það hefur þær jákvæðu breytingar í för með sér að fleiri ljúka námi fyrr, á réttum tíma ef svo má segja. Það er augljóst hagræði að því í skólakerfinu að hver námsmaður kappkosti að ljúka námi eins hratt og hægt er. Það gefur augaleið og því viljum við nota styrklánafyrirkomulagið sem námslokahvata.

Þá er nauðsynlegt að hluti af endurgreiðslu námslána verði frádráttarbær frá skatti og munum við flytja um það sérstakt þingmál. Við lögðum fram sérstakar tillögur um það fyrir tæpum fjórum árum í aðdraganda alþingiskosninganna árið 2003, og munum við kynna það síðar. Allir flokkarnir lögðu fram einhverja útgáfu af því að endurgreiðsla námslána væri að hluta frádráttarbær frá skatti og rak BHM mjög mikinn áróður fyrir því að þetta yrði tekið upp í stefnuskrá flokkanna.

Að lokum skal þess getið að hér er lagt til að heimilt verði að veita lán til undirbúnings listnámi á háskólastigi þar sem slíkt nám fer nú fram við tiltekna skóla. Þá leggjum við til að Lánasjóður íslenskra námsmanna veiti lán til framhaldsnáms við skóla sem gera sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og gerðar eru til háskólanáms erlendis. Samkvæmt 2. gr. laganna er heimilt að veita öðrum námsmönnum námslán en þeim sem falla undir skilgreiningu nefnds liðar, að þeir stundi sérnám. Hér er lagt til að lögfest verði í 2. gr. laganna að heimilt verði að veita lán til sérnáms sem er undirbúningur að námi í Listaháskóla. Það er mikil réttlætisbreyting og hefur það í för með sér að mun fleiri, sem hafa á því áhuga, sæki sér nám í Listaháskóla ef þeir geta fengið námslán fyrir undirbúningsnámi sínu að skólanum.

Hér er því um að ræða nokkrar grundvallarbreytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna sem gerir sjóðnum kleift að rækja hlutverk sitt enn betur. Að standa enn þá betur undir því að vera jöfnunarsjóður sem tryggir jafnrétti til náms til framtíðar. Það hefur sjóðurinn gert með ágætum árangri áratugum saman. En þessar breytingar eru réttlætisbreytingar, afnám ábyrgðarmannakröfunnar og að hluti lána breytist í styrk hafi námslokum verið náð á tilskildum tíma.