133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[16:59]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að fá að leggja nokkur orð í belg í þessari umræðu. Það er ánægjulegt að ræða hér um Lánasjóð íslenskra námsmanna á 19 ára afmælisdegi Röskvu. En ég á að það sameiginlegt með hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni að hafa verið í þeim félagsskap — og við erum í honum, mér skilst að maður sé þar að eilífu. Það er félagsskapur og afl sem hefur staðið mjög vörð um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Um það hefur líka verið samstaða meðal allra flokka að Lánasjóður íslenskra námsmanna sé öflugur og þjóni markmiðum sínum — en menn deila stundum um leiðir.

Mig langaði, virðulegi forseti, að koma örstutt inn á tvö atriði. Í fyrsta lagi varðandi ábyrgðarmannakerfið. Ég flutti hér mál um að fella það niður. Í kjölfarið urðu þær breytingar að aðstandendur námsmanna geta nú keypt sig frá þessum ábyrgðum með mjög litlum tilkostnaði hjá bönkunum. Ég held að það skref bankanna hafi verið gríðarlega jákvætt. Ég verð ekki vör við annað en að um það ríki mikil ánægja og sátt og þessi mál eru nánast horfin, þ.e. þessi erfiðu mál. Ég man vel eftir því þegar ég starfaði á réttindaskrifstofu stúdentaráðs þegar þangað var að koma fólk sem ekki gat hafið nám út af þessari kvöð. Þannig að ég verð að viðurkenna að hafa kannski horfið frá þessari baráttu þar sem mál voru komin í þann farveg.

En síðan var það hitt atriðið sem ég vildi koma inn á, þ.e. að ef námsmaður lýkur lokaprófum á tilskildum tíma breytist 30% lánanna í styrk. Það er alltaf ágætt að hafa svipu á námsmönnum, segir sá námsmaður sem hér stendur sem hefur haft sitt nám lengi útistandandi. Við í Framsóknarflokknum höfum haft það á stefnuskrá að skoða kosti og galla þess að taka upp styrkjakerfi hjá lánasjóðnum. Þegar farið var út í þá vinnu að lækka endurgreiðslubyrði námslána var þess getið í lokatillögum nefndarinnar að lánasjóðurinn færi í að skoða þessa hluti. Það er ástæða til að athuga hvernig sú skoðun hefur gengið og hvort eitthvað er að gerast í þeim málum því ég held að það sé mikið þjóðþrifamál að fara út á þessa braut. Við höfum reyndar ekki haft nákvæmlega þessa útfærslu, eins og ég sagði áðan erum við ekki alltaf sammála um leiðir þó að við séum sammála um markmið.

En ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka fyrir þessa tillögu. Hún er gott innlegg í þá umræðu að efla enn frekar Lánasjóð íslenskra námsmanna, sem við höfum öll að markmiði, og við tökum á móti henni í menntamálanefnd.