133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

72. mál
[17:25]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér færi á að fara yfir stefnu Framsóknarflokksins varðandi skólagjöld, en stefnan er skýr. Við höfum ekki viljað taka upp skólagjöld á háskólastigi í grunnnámi. Við höfum innan okkar raða helst rætt um framhaldsstigið, þ.e. masters- eða doktorsnám en ekki hafa verið neinar samþykktir gerðar þar að lútandi innan okkar flokks.

Ég er þeirrar skoðunar að hið opinbera eigi að bjóða upp á fjölbreytt úrval háskólanáms án skólagjalda til þess að allir eigi þess kost á að geta sótt nám vegna þess að það er einfaldlega arðbært fyrir þjóðina.

Nú hefur þróunin verið sú að háskólum hefur fjölgað sem taka skólagjöld. Við höfum mætt þeirri þróun eins og hv. þingmaður þekkir með því að Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur lánað fyrir skólagjöldunum. En stúdentar hafa val um að sækja sér nám annaðhvort í þeim ríkisreknu háskólum sem eru og greiða þá ekki skólagjöld eða sækja nám til háskóla sem ekki eru ríkisreknir en njóta að sjálfsögðu stuðnings ríkisins og taka samhliða skólagjöld. Það er auðvitað heilmikil umræða að ræða um samkeppnisstöðu ríkisreknu háskólanna á við þá sem geta tekið skólagjöld. En það er önnur umræða.

Þetta er alveg skýrt. Það er mikilvægt að fólk hafi þetta val og það sé fyrir hendi eins og er í dag.