133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

gjaldfrjáls leikskóli.

49. mál
[17:57]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um gjaldfrjálsan leikskóla. Þetta er á þingskjali 49 og er 49. mál þessa þings. Tillögumenn eða flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Tillögugreinin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að skipa nefnd sem fái það verkefni að undirbúa og annast viðræður við sveitarfélögin um sameiginlegt átak þeirra og ríkisins um að gera leikskóladvöl gjaldfrjálsa í áföngum. Nefndin verði skipuð fulltrúum allra þingflokka og fulltrúa frá fjármálaráðuneyti, menntamálaráðuneyti og Félagi leikskólakennara auk formanns sem félagsmálaráðherra skipi án tilnefningar.“

Hér er um að ræða endurflutning á tillögu sem birst hefur áður á þremur síðustu þingum en ekki orðið útrædd í neitt skiptið. Tillagan er að stofni til upp úr stefnumótun sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótaði á árunum 2002–2003 og gerði að sérstöku baráttumáli sínu í alþingiskosningunum það ár, þ.e. 2003, um að hafin yrði barátta fyrir því eða farið yrði í aðgerðir til þess að gera leikskóladvöl í landinu gjaldfrjálsa.

Efni greinargerðar tillögunnar var uppfært ítarlega síðasta haust og er vísað í aðalatriðum til þeirra upplýsinga þó vissulega megi reikna með að talsverðar breytingar hafi orðið á síðan þá, sérstaklega með tilkomu nýrra sveitarstjórna síðasta vor. Þá var aflað upplýsinga um stöðu þessara mála hjá sveitarfélögunum. Þingflokkur okkar skrifaði öllum sveitarfélögum í landinu, sem mörg hver og flest brugðust vel við og sendu inn upplýsingar um stöðu mála, hvort áform væru um að auka gjaldfrelsi eða gefa leikskólann alveg gjaldfrjálsan og hvar á vegi þau væru þá stödd.

Í ljós kom að hreyfing er á þessu máli hjá fjölmörgum sveitarfélögum í landinu og a.m.k. eitt þeirra hefur eða hafði þá þegar stigið skrefið til fulls og ákveðið að gera leikskólann gjaldfrjálsan, það var Súðavíkurhreppur. Allmörg í viðbót hafa tekið umtalsverð skref í þessa átt. Þannig er í allmörgum sveitarfélögum orðið um gjaldfrelsi að ræða fyrir síðasta ár í leikskóla, a.m.k. svo nemur sex tímum, u.þ.b. það sem talið er að þurfi að halda úti til þess að unnt sé að uppfylla með fullnægjandi hætti viðfangsefnum samkvæmt námskrá leikskóla og mörg sveitarfélög eru með í undirbúningi eða hafa þegar tekið skref í átt til frekara gjaldfrelsis þannig að einhver tímafjöldi á ári hverju komi til sögunnar.

Fróðlegt verður að fara yfir það t.d. þegar áform birtast á þessu ári á grundvelli fyrstu fjárhagsáætlunar nýkjörinna sveitarstjórna sem væntanlega fela í sér gjaldskrárbreytingar og breytta tilhögun þessara mála, t.d. næsta haust þegar nýtt skólaár hefst, hvar þessi mál verða þá á vegi stödd.

Rökin fyrir þessu máli eru margvísleg. Þau nærtækustu eru að alllangt er um liðið síðan leikskólinn var viðurkenndur sem fyrsta skólastigið og starfsheitið leikskólakennari var tekið upp. Ef við horfum á málin frá þeim bæjardyrum eru auðvitað engin sérstök rök til þess að foreldrar borgi dýrum dómum fyrir fyrsta skólastigið en þeirri gjaldtöku ljúki svo þegar kemur upp á næsta skólastig þar fyrir ofan, þ.e. upp í grunnskólann. Að vísu er það nú svo, því miður, að talsvert vantar upp á að grunnskólanám sé gjaldfrjálst, ýmiss konar kostnaði hefur þar verið velt yfir á foreldra á undanförnum árum og fjölmargar af þeim umbótum í grunnskólastarfi sem menn hafa lengi barist fyrir hafa birst í formi þess að foreldrum er ætlað að taka talsverðan þátt í kostnaðinum.

Þetta er mikið jafnréttis- og jafnaðarmál. Enginn vafi er á því að niðurfelling leikskólagjalda, sem er auðvitað gríðarleg kjarabót fyrir fjölskyldur með ung börn, felur líka í sér mikla jöfnun á aðstöðu því að gjaldtakan, útgjöldin eru tilfinnanlegust fyrir tekjulágar barnafjölskyldur. Einnig má líka velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki sérstaklega brýnt í ljósi þess mikla fjölda fólks af erlendum uppruna sem hér hefur sest að á undanförnum árum og mikilvægt að börn þessa fólks eigi skilyrðislaust kost á því að fá þjálfun í grunnskóla og vera þar í þroskandi umhverfi, a.m.k. einhvern hluta dagsins, umgangast önnur börn, taka út sinn málþroska að einhverju leyti í því umhverfi o.s.frv. Ég held að það sé tvímælalaust mjög jákvætt innlegg í allt sem lýtur að aðlögun eða samhæfingu fólks af erlendum uppruna sem hingað er flutt. Við vitum og að baki liggja ákveðnar kannanir að tilhneiging er til þess að slíkar fjölskyldur láti sig frekar muna um eða hafi síður ráð á þeim kostnaði sem leikskóladvölinni er samfara og meiri tilhneigingar gæti þar af leiðandi til þess að börn slíkra fjölskyldna séu heima og fara þá á mis við það þroskandi umhverfi sem á að vera og ég fullyrði að sé almennt í leikskólum okkar þar sem er unnið yfir höfuð metnaðarfullt og gríðarlega mikilvægt starf að sjálfsögðu.

Varðandi tekjustofna og kostnað er alveg ljóst að sveitarfélögin ráða mörg hver mjög illa við það að bæta á sig útgjöldum af þessum sökum og þess vegna hefur okkar nálgun frá byrjun gert ráð fyrir því að um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga sé að ræða og að ríkið komi til móts við sveitarfélögin með annars vegar tekjustofnum eða auknum fjárveitingum og/eða með því að létta af sveitarfélögunum kostnaði á móti þannig að ekki verði um umtalsverðan kostnaðarauka hjá sveitarfélögunum að ræða. Sveitarfélögin vörðu tæpum 12 milljörðum kr. til dagvistunarmála á árinu 2004 og á móti því komu tekjur vegna leikskólagjalda upp á um 3,3 milljarða kr. eða um 28%. Þessar hlutfallstölur eru væntanlega nálægt lagi enn þann dag í dag þó að upphæðirnar hafi auðvitað hækkað. Þar af leiðandi er ljóst að þetta snýst um að sveitarfélögunum sé gert kleift með tekjustofni eða fjárveitingu eða þá að öðrum verkefnum sé létt af þeim sem nemur um það bil þeim upphæðum. Þar höfum við bent á húsaleigubætur og þann kost að ríkið taki þær alfarið yfir. Það hefur einnig þann kost að þá er hægt að sameina húsaleigubætur og vaxtabætur í skattkerfinu og það höfum við lengi lagt til að yrði gert og tekin upp samræmd húsnæðisframlög. Útgjöld sveitarfélaga vegna húsaleigubóta voru komin yfir 1,5 milljarða á árinu 2005 og ekki ólíklegt að þau séu af stærðargráðunni 1.700–2.000 milljónir eins og stendur þannig að eftir stæðu þá kannski 1,3–1,6 milljarðar kr. sem sveitarfélögunum þyrfti að bæta upp í formi beinna tekna ættu þau að koma út á sléttu og miðað við að ríkið yfirtaki greiðslu húsaleigubóta.

Ljóst er að dæmið er vissulega flóknara en þetta því að réttur til gjaldfrjálsrar leikskóladvalar og skyldur sveitarfélaga til að fullnægja eftirspurn þurfa að haldast í hendur og það yrði því að gera ráð fyrir nokkrum stofnkostnaði hjá a.m.k. einhverjum hluta sveitarfélaganna til að þau gætu mætt aukinni eftirspurn. Engin ástæða er til að draga dul á að um aukin útgjöld gæti þar með orðið að ræða en á móti kæmi meiri þjónusta á þessu sviði og jafnari réttur allra til þess að börn þeirra nytu þess að eiga kost á leikskóladvöl. Þetta er að okkar dómi mikið réttlætis- og sanngirnismál. Þetta er mikilvægt félagslegt og menntunarlegt framfaramál og ástæða til að ætla að slíkum aðgerðum gæti einnig fylgt þjóðhagslegt hagræði sem kæmi fram á öðrum sviðum svo sem í aukinni framleiðni og samkeppnishæfni í atvinnulífinu þó langveigamest sé að okkar mati það réttlæti sem fólgið er í jafnari lífskjörum og breytingum í átt til fjölskylduvænna samfélags sem þetta tvímælalaust er liður í. Ekki veitir nú af að einhvers staðar miði í rétta átt í þeim efnum að treysta undirstöður samábyrgs velferðarsamfélags í landinu en við höfum séð allt of lítið af slíkum hlutum á undanförnum árum.

Auk þess er það auðvitað svo að full ástæða er til að ríki og sveitarfélög ræði sín mál og reyni að koma þeim samskiptum í betra horf en þau hafa verið. Afkoma sveitarfélaganna er algjörlega óviðunandi margra hverra og miðar síst í rétta átt í þeim efnum. Þannig er t.d. ljóst að lítil og meðalstór þéttbýlissveitarfélög á landsbyggðinni búa mörg hver við gjörsamlega óviðunandi afkomu, eiga varla fyrir rekstri, hvað þá nokkrum fjárfestingum og víða hefur blóðugur niðurskurðarhnífurinn verið skilinn eftir í höndum forsvarsmanna sveitarfélaganna þegar eftirlitsnefnd um fjármál þeirra hefur farið um og yfirleitt er lausnarorðið eitt og hið sama, að skera niður bráðnauðsynlega félagslega þjónustu sem er auðvitað það sísta sem þau sveitarfélög þurfa á að halda ef þau eiga að vera samkeppnisfær um þjónustu fyrir sína íbúa og geta keppt um búsetu fólks.

Ég vísa svo að öðru leyti, virðulegur forseti, til þeirra fylgiskjala sem tillögunni fylgja og rökstuðnings okkar og málflutnings í hennar þágu á undanförnum árum. Við munum halda þessu baráttumáli áfram og hvergi láta deigan síga í því þangað til fullur sigur er í höfn. Það varð gríðarleg vitundarvakning í málinu í tengslum við sveitarstjórnarkosningarnar á síðasta vori og almennt luku flestir frambjóðendur lofsorði á það, á stefnumótun í þessa veru og virtist ekki skipta öllu máli úr hvaða stjórnmálaflokkum þeir komu. Gríðarleg viðhorfsbreyting var því orðin bara á þeim árum sem liðin voru frá árunum 2002, 2003 þegar við vorum fyrst að reyna að koma þessu máli á dagskrá og fengum satt best að segja merkilega litlar undirtektir í byrjun. En núna vildu frambjóðendur flestra flokka Lilju kveðið hafa og töluðu um mikilvægi þess að stefna á breytingar í þessa veru og er það auðvitað vel.

Verkefnunum er þar með ekki lokið. Ég minni aftur á og ítreka það sem ég sagði um gjaldtöku í grunnskólanum. Hún er býsna tilfinnanleg orðin á mörgum sviðum. Þar má t.d. nefna að ekki skuli hafa tekist að koma á skólamáltíðum án endurgjalds, sem er mikið réttlætismál og hefur einnig sterka félagslega skírskotun og skírskotun til þess að jafna aðstöðu og að tryggja þeim sem einmitt mest þurfa á að halda að slík þjónusta sé í boði og hún sé öllum aðgengileg og öllum viðráðanleg, þ.e. að efnahagslegar ástæður valdi því ekki að sum börn fara þess á mis að fá hollan og nærandi mat í leikskóla og grunnskóla.

Með vísan til þessa, virðulegur forseti, læt ég máli mínu lokið og legg til að tillögunni verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og félagsmálanefndar.