133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

kennsla vestnorrænnar menningar í grunnskólum.

78. mál
[18:23]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Þessi tillaga er flutt af okkur sem eigum sæti í Vestnorræna ráðinu, ásamt mér hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur, Hjálmari Árnasyni, Sigurrós Þorgrímsdóttur, Guðrúnu Ögmundsdóttur og Sigurjóni Þórðarsyni. Þessi tillaga er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins frá í sumar, svohljóðandi:

Vestnorræna ráðið skorar á ríkisstjórnir Íslands, Færeyja og Grænlands að tekin verði upp kennsla í grunnskólum um sögu, þjóðfélagsgerð, menningu og tungumál vestnorrænna nágrannalanda og verði kennslan fastur liður í námskrá á mismunandi og viðeigandi aldursstigum. Löndin eru hvött til að útbúa sameiginlegt kennsluefni á öllum málunum þremur í þessum tilgangi.

Þessi þrjú lönd, Ísland, Færeyjar og Grænland, eiga auðvitað margt sameiginlegt varðandi sögu, menningu og þjóðfélagsgerð og raunar vegna legu þeirra eru einnig atvinnuhættir að mörgu leyti svipaðir og hagsmunir þjóðanna mjög nátengdir. Af þeim sökum er þýðingarmikið að við lærum að þekkja hvert annað og skilja þau sjónarmið sem liggja á bak við byggð í hverju landi og þess vegna teljum við það mjög gagnlegt ef íbúarnir í þessum löndum kynnast menningu og sögu þjóðanna, ég tala ekki um ef árangur næðist í því að við Íslendingar lærðum grænlensku og færeysku og gagnkvæmt, að Grænlendingar kynnu okkar tungumál og auðvitað Færeyingar sem raunar ná tökum á íslensku furðu fljótt. Eins og nú standa sakir er grátlega lítið um kennslu og fróðleik um þessar grannbyggðir okkar og með þessari tillögu viljum við reyna að breyta því.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. Það er mjög þroskandi fyrir unglinga og börn að læra í grundvallaratriðum um uppbyggingu grænlensku, sögulega þróun þess tungumáls og lifnaðarhætti á Grænlandi. Hið sama á raunar við um Færeyjar en saga Færeyja hefur um árhundruð verið mjög samtvinnuð, sérstaklega okkar Íslendinga og raunar Grænlendinga einnig.

Ég legg til, frú forseti, að málið gangi til hv. utanríkismálanefndar.