133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[13:40]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir því að hér fari fram umræða um byggðamál sem ekki hefur farið mikið fyrir í umræðum á þingi, a.m.k. ekki í vetur, þó að mikil þörf hafi verið fyrir hana. Það gleymist stundum í umræðu um byggðamál að geysileg verðmæti eru í því fólgin að landið sé í byggð og það eru mikil verðmæti sem tapast eftir því sem byggð í landinu dregst saman. Stjórnvöld hafa stóru hlutverki að gegna í þessum málum til að tryggja að byggðir geti þróast á eðlilegan hátt. Að sjálfsögðu hafa stjórnvöld það ekki ein í hendi sér hvernig byggðir þróast en það skiptir miklu máli hvaða ákvarðanir eru teknar, hvernig þær eru teknar og hvaða markmið eru sett. Undanfarin missiri hefur fólki á landsbyggðinni fækkað verulega. Það á rætur sínar að rekja til margvíslegra þátta sem verða ekki tæmdir hér í stuttri umræðu en það er alveg ljóst að sumt er af manna völdum, annað ekki, sumt vegna ákvarðana stjórnvalda og annað ekki. Má taka sem dæmi að þó að þessi umræða fari kannski ekki út í sjávarútveg einan og sér fækkaði á árabilinu 1998–2004 störfum í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum um tæplega 50%, á þessum sex árum, þ.e. sú hagræðing sem hefur hlotist af núverandi kerfi bitnar af miklum þunga á þessum byggðarlögum. Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvaða áhrif svona breytingar hafa í för með sér.

Það er einnig ljóst að byggðamál hafa ekki verið í neinum forgangi hjá ríkisstjórninni og einkum hvað varðar samgöngumál þar sem sáralitlir fjármunir hafa verið settir í þann málaflokk. Tekjur af samgöngum almennt og bifreiðum og ökutækjum slaga hátt í 50 milljarða á ári en framlög hafa verið þetta 11–12 milljarðar til allra vegamála í landinu. Menn sjá að þetta hefur ekki verið í miklum forgangi.

Virðulegi forseti. Ég kem sérstaklega upp til að ræða stöðu Vestmannaeyja sem hafa ekki farið varhluta af þessari þróun frekar en önnur byggðarlög. Það má taka sem dæmi að á undanförnum 15 árum hefur íbúum í Vestmannaeyjum fækkað úr 5 þús. í 4 þús. og mér er til efs að nokkurt byggðarlag hafi misst svo stóran hluta af íbúum sínum eða svona háa íbúatölu.

Margt kemur til. Í fyrsta lagi er alveg ljóst að samgöngur hafa ekki þróast á eðlilegan hátt á undanförnum árum og þótt ýmislegt hafi verið gert varðandi Herjólf og endurbætur á fjölgun ferða o.s.frv. er ljóst að fargjöld og annað þess háttar og aflagning strandflutninga hefur leitt til þess að Herjólfur getur ekki lengur sinnt þeim verkefnum sem hann þarf að sinna. Má taka sem dæmi að sú tæplega 11% fargjaldahækkun sem varð um daginn mun auka kostnað á öllum aðföngum til Eyja og fara langt með að uppræta þann ávinning sem Vestmannaeyingar kynnu að hafa af lækkun virðisaukaskatts um næstu mánaðamót. Það er ekkert minna, virðulegi forseti, sem þetta kann að hafa í för með sér. Það er mjög mikilvægt að fá viðhorf stjórnvalda til þess að Vestmannaeyingar greiði sama gjald fyrir ferð sína um þennan þjóðveg og aðrir Íslendingar gera þegar þeir aka þjóðvegi í landinu.

Í annan stað urðu Eyjamenn fyrir miklu áfalli um daginn þegar skipalyftan í Vestmannaeyjum hrundi en hún var byggð upp í samstarfi ríkis og bæjar fyrir 25 árum þar sem ríkið lagði til 60% og bærinn 40%. Nú liggur fyrir, virðulegi forseti, að það þarf að endurbæta þessa lyftu og það er ekkert því til fyrirstöðu að ráðist verði í þessar endurbætur nema fjármagn að komi frá stjórnvöldum til þess í sama mæli og þegar lagt var af stað í upphafi að byggja upp lyftuna. Hér er um að ræða verkefni sem án efa kostar á bilinu 300–500 millj. Það er ljóst að bærinn mun ekki gera þetta einn. Það er einnig ljóst að fyrir liggja úrskurðir frá Samkeppnisstofnun þess efnis að ekkert sé því til fyrirstöðu að ríkið leggi þessa fjármuni í þetta verkefni, svo framarlega sem rekstur lyftunnar verði boðinn út.

Því hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að bera upp nokkrar spurningar við hæstv. byggðamálaráðherra um þessi málefni. Ég hef komið þeim til hans skriflega og þar sem tíma mínum er lokið reikna ég með að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) muni fara yfir þær.