133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[13:45]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hefja þessa umræðu. Það er vissulega ástæða til að ræða um stöðu, horfur og þróun byggðar og atvinnulífs og menningarlífs úti á landsbyggðinni.

Umræðan snýr auðvitað að verulegu leyti að opinberum framlögum, opinberum aðgerðum á þessu sviði. Það er ástæða til að taka það fram, eins og menn reyndar vita, að framlög í því skyni koma víða fram í fjárlögunum, bæði í byggðaáætlun, samgönguáætlun og undir liðum einstakra ráðuneyta og hafa vaxið myndarlega á undanförnum árum.

Vestmannaeyjar hafa að sjálfsögðu skýra sérstöðu meðal þéttbýlisstaða og byggðarlaga, landshættir skapa þeim ótvíræða sérstöðu í öllu sem lýtur að flutningum og samgöngum. Framfarir í vegamálum, samgöngumálum annars staðar, hafa þar af leiðandi áhrif á stöðu Vestmannaeyja og Vestmannaeyinga. Að sumu leyti má segja að byggðin þar hafi fyrir vikið staðið hallari fæti en áður hefur verið og þetta bitnar sjálfsagt á samfélaginu þar.

Í þessu ljósi geta allir skilið það að Vestmannaeyingar lýsi óánægju sinni þegar sérstakar truflanir verða á flugsamgöngum eða sjóflutningum og þegar gjaldskrárhækkanir verða. Sjóflutningar til Vestmannaeyja eru nú niðurgreiddir og það er viðleitni til þess að koma til móts við þessa sérstöðu og virða það, eins og kemur fram í einni spurningu hv. þingmanns, að það sé sem líkast því sem er þegar um þjóðveg er að ræða en að sönnu verða þar alltaf mjög mörg álitamál.

Samgöngurnar eru auðvitað lykilþáttur í lífsbaráttu, menningarlífi og þjóðlífi Eyjamanna. Það þarf að auka flugsamgöngurnar, tryggja þær sem allra best, jafnt í mannflutningum sem í vöruflutningum, bæði beint til og frá Reykjavík. Einnig gegnir Bakkavöllur sjálfsagt mjög mikilvægu og jafnvel vaxandi hlutverki.

Af hálfu Eyjamanna hefur því oft verið lýst hversu mikil þörf er fyrir nýtt og hraðskreiðara og stærra flutningaskip en þeir hafa haft um skeið til þessa. Þetta er auðvitað eitthvert mikilvægasta málið sem Vestmannaeyingar hafa vakið athygli á að undanförnu og kemur líka fram í einni spurningu hv. þingmanns.

Ríkisstjórnin hefur margsinnis rætt þetta mál að undanförnu og ég fullvissa menn um að innan hennar er mikill skilningur á þessum óskum og þörfum. Rétt er og að hafa það í huga að athuganir eiga sér stað á hugsanlegum framtíðarmannvirkjum á Bakkafjöru gegnt Heimaey en niðurstöður þeirra liggja hins vegar ekki fyrir enn sem komið er.

Það er verið að endurskoða hafnalög, hef ég heimildir um, og þar á meðal er fjallað um ákvæði um skipalyftumannvirki og upptökumannvirki og ég geri ráð fyrir því að hafi erindi borist — sem ég veit ekki um og hafði ekki tök á að kynna mér fyrir þessa umræðu því að ég vissi ekki um spurningarnar fyrr en í hádeginu — til Byggðastofnunar treysti ég því að um það verði fjallað þar á eðlilegan og málefnalegan hátt. En ég minni á að það eru mjög sterkar reglur og takmarkanir og skorður sem settar eru við opinberum stuðningi í reglum um Evrópska efnahagssvæðið.

Hv. þingmaður nefndi það í ræðu sinni að hefðbundnar atvinnugreinar í Eyjum hefðu fækkað starfsliði eins og verða vill og menn þekkja í hagræðingu og tækniþróun og þá leggjum við aukna áherslu á nýsköpun sem komi í staðinn.

Iðnaðarráðuneytið sem fer með byggðamál telur mikilvægt að unnið verði í byggðarlögunum á grundvelli vaxtarsamninga til að efla og styrkja byggðir og atvinnulíf.

Vaxtarsamningar eru ekki aðeins sameiginleg fjárframlög ríkissjóðs, sveitarfélaga og fyrirtækja til sameiginlegra skilgreindra verkefna, heldur byggist vaxtarsamningur umfram allt á því að forsjá og forusta fer til heimamanna.

Í nýlegum vaxtarsamningi sem Vestmannaeyingar eiga aðild að eru talin upp fjöldamörg mikilvæg verkefni til eflingar og styrkingar byggð og atvinnulífi í Vestmannaeyjum en tímans vegna get ég ekki talið þau upp að sinni.