133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[13:50]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég tek mjög undir þau orð hv. þingmanns og málshefjanda hér, Lúðvíks Bergvinssonar, þegar hann sagði að byggðir og búseta væru í sjálfu sér auðlegð. Byggð og búseta um land allt er auðlegð sem við þurfum að standa vörð um og hefur hallað á í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Hann vakti athygli á stöðu Vestmannaeyja sérstaklega, samkeppnisstöðu þeirra og því hvað þær eru háðar nánast eingöngu sjóflutningum, bæði á fólki, bílum og vörum.

Einmitt nýverið voru þessi gjöld hækkuð. Er ekki Herjólfur hluti af samgöngukerfi landsmanna? Á að refsa fólki fyrir að búa í Vestmannaeyjum og láta það greiða hærri kostnað vegna flutninga ferða til og frá landi?

Nei, Herjólfur á að vera hluti af samgöngukerfi þjóðarinnar. Það á að kosta íbúa Vestmannaeyja jafnmikið að fara með honum eins og að aka eftir þjóðvegi, og jafnvel minna því að ekki er aukið hagræði að því. Það er hin samfélagslega ábyrgð.

Svör ríkisstjórnarinnar eru þau að einkavæða enn þá fleiri vegi, taka upp gjaldtöku á enn þá fleiri vegum til þess að mismuna. Númer eitt er að gera þjóðveginn til Vestmannaeyja hliðstæðan öðrum þjóðvegum í landinu.

Ég er hér með Bændablaðið, frú forseti. Hér er annar vegur sem þessi ríkisstjórn hefur íþyngt landsmönnum með, stórhækkun á raforkuverði, (Forseti hringir.) það er á svo margan hátt sem íbúum landsbyggðarinnar er íþyngt með stjórnvaldsaðgerðum, frú forseti. Því miður.