133. löggjafarþing — 70. fundur,  13. feb. 2007.

samkeppnisstaða Vestmannaeyja og landsbyggðarinnar.

[13:54]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég fagna því nú mjög að hæstv. byggðamálaráðherra skuli hafa lýst því yfir í ræðu sinni áðan að Vestmannaeyjar hefðu skýra sérstöðu. Ég hef ekki áður heyrt ráðherra í ríkisstjórn Íslands lýsa því yfir á þessu kjörtímabili að Vestmannaeyjar hefðu skýra sérstöðu þannig að þessi yfirlýsing ein og sér er að sjálfsögðu fagnaðarefni.

Hér hefur verið komið inn á ýmsa þætti eins og samgöngur, skipalyftuna og annað sem skiptir Vestmannaeyjar miklu máli. Tölum aðeins um skipalyftuna. Mér finnst umræðan um hana alveg með ólíkindum. Hvers vegna í ósköpunum virðist vera nánast bannað að gera við það sem bilar úti í Vestmannaeyjum? Hvernig í ósköpunum stendur á því að menn fela sig á bak við eitthvert yfirvald frá Brussel, skjóta sér á bak við einhver hafnalög í þessu tilfelli? Hvernig í ósköpunum stendur á því að ekki er hægt að fara í þetta verk og gera við skipalyftuna? Þetta er alveg óskiljanlegt.

Kostnaðurinn við ferðir milli lands og Eyja er óásættanlegur. Við fögnum því að sjálfsögðu að gerðar hafa verið endurbætur í flugsamgöngum en það þarf nýjan Herjólf. Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að útvega nýtt skip? Það er þá alltaf hægt að selja það aftur, er það ekki? Þarf þetta að vera svona ofboðslega flókið og erfitt? Ég segi nei, þetta þarf ekki að vera svona flókið og erfitt. Alls ekki.

Lítum á flugið. Flugið er gott, að sjálfsögðu er það það. Flugið milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja er gott. En hvernig stendur á því að samkeppnisstaða Flugfélags Vestmannaeyja og Flugfélags Íslands er með þeim hætti sem við sjáum í dag? Af hverju er flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja niðurgreitt meðan Flugfélag Vestmannaeyja með sinn glæsilega og góða rekstur þarf algjörlega að bjarga sér sjálft?

Stjórnvöld verða að fara að sýna því skilning að Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu. Sérstaða Vestmannaeyja kallar á sértækar lausnir. Það þarf að gera átak í stöðu Vestmannaeyja. Vestmannaeyjar skipta okkur öll, íslenska þjóð, mjög miklu máli, (Forseti hringir.) samfélagið þar. Og það er algjörlega ólíðandi að hafa þurft að horfa upp á það á undanförnum árum hvernig ríkisstjórnin hefur látið sjávarbyggðir þessa lands drabbast niður, virðulegi forseti.